
Kominn tími á Austurland í ísklifri
„Við klifrum í fjöllum, giljum, fossum og bara þar sem er nógu bratt,“ segir Sigurður Ýmir Richter, stjórnarmaður í Íslenska Alpaklúbbnum, en tæplega fimmtíu manns á vegum klúbbsins munu leggja stund á ísklifur víðsvegar um Breiðdalinn alla helgina.
Ísklifurfestival Íslenska Alpaklúbbsins (Ísalp) veður haldið í Breiðdal um helgina og hefst í rauninni á morgun, fimmtudag. Hópurinn verður með aðsetur á Hótel Staðarborg.
„Þetta er árlegur viðburður, þar sem við förum saman á einhvern stað til þess að klifra. Austurland hefur fengið hve minnsta athygli ískilfurfólks og þess vegna ákváðum við að fara austur í ár. Breiðdalurinn varð fyrir valinu því þar eru þó einhverjar leiðir skráðar og búið að setja upp varanlegar tengingar, eða bolta á nokkrum leiðum. Á meðan geta aðrir farið út í óvissuna og kannað nýjar leiðir, skráð niður og kynnast svæðinu og jafnvel stöðunum í kring, eins og Stöðvarfirði og Berufirði,“ segir Sigurður.
„Fyrir mig er það adrenalínkikkið“
Sigurður segir að flestir þeir sem eru á leiðinni í Breiðdalinn séu með ágætis reynslu af ísklifri. „Ef þú ert byrjandi og átt búnað, þá er þetta þetta mjög fínn staður til þess að byrja á. Einnig ef einhverjir hafa áhuga á að kynna sér ísklifur þá verðum við á svæðinu alla helgina.“
En hvað er það sem er svona heillandi við sportið? „Fyrir mig persónulega er það adrenalínkikkið. Svo eru sumir í þessu vegna ævintýramennsku, útiverunnar eða bara eftir því hverju fólk er að sækjast.“