„Konukvöldin eru orðin þekkt hérna fyrir austan“

Hárstofa Sigríðar á Reyðarfirði og verslunin Kjólar og Konfekt í Reykjavík standa fyrir kvenna- og kósýkvöldi á Hótel Austur á Reyðarfirði næstkomandi föstudagskvöld.

 


„Þetta er ekki aprílgabb, heldur verður þetta frábært kvöld,“ segir Sigríður, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún heldur kvennakvöld en að baki eru þrjú slík og tvö karlakvöld. Að þessu sinni verður stuðið á Hótel Austur en áður voru kvennakvöldin haldin í Félagslundi.

„Þetta verður með aðeins öðru sniði, þó svo að flest sem við höfum verið með verði á sínum stað. Fyrst ber að taka það fram að frítt er inn á kvöldið sem gerir það að verkum að hægt er að droppa við í smástund, versla kjól, snyrtivörur og ýmislegt annað og fara svo bara heim ef áhugi er fyrir því.

Við verðum með tískusýningu frá Kjólum og Konfekti, sýnikennslu í förðun, happdrætti og frábær söngatriði en Fjarðadætur koma og taka nokkur lög sem og Tenna og Tyrfingur. Boðið verður upp á léttar veitingar, barinn verður opinn og plötusnúður á eftir.“


Allar konur geta fengið á sig kjól við hæfi

Sigríður segist alltaf ætla að hætta að vasast í þessu eftir hvert skipti en það sé alltaf eitthvað sem togar í hana og fær til að halda áfram. „Það er nú sjaldan lognmolla í kringum mig – þetta er alltaf rosalega gaman, en bara vinna. Þetta atvikaðist þó með öðrum hætti í ár, ég ætlaði einmitt ekki að fara út í þetta en þegar Kjólar og Konfekt höfðu samband og báðu mig um að gera þetta í samstarfi við sig gat ég bara ekki sagt nei.

Verslunin er með kjóla í öllum stærðum og gerðum, auk þess að vera með skó og förðunarvörur. Þær láta sérsauma kjólana fyrir sig og því eru þeir bæði vandaðir og mjög fallegir. Mér finnst sérlega ánægjulegt að vera í samvinnu við þær vegna þess að hjá þeim geta allar konur fengið kjóla á sig við hæfi.“

Sigríður býst við miklu stuði. „Konukvöldin eru orðin þekkt hérna fyrir austan, allir vilja koma og þykir rosalega gaman, en það er nú ekki það mikið um að vera á svæðinu. Mér heyrist vera mikil stemning og stefnir í þrusugóða mætingu og ég veit af vinnustöðum og saumaklúbbum sem ætla að koma en svo er húsið opið fyrir karlpeninginn á eftir.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.