Kór Reyðarfjarðarkirkju til Manchester til heiðurs stjórnandanum
Kór Reyðarfjarðarkirkju heldur á föstudag í helgarferð til Manchesterborgar í Englandi og ætlar þar að koma fram á ýmsum stöðum. Ferðin er farin til að heiðra stjórnandann sem fæddur er í borginni.
„Ég er búin að vera hér í 30 ár og langaði að gera eitthvað öðruvísi til að halda upp á það. Það er langt síðan við höfum farið erlendis,“ segir Gillian Haworth, stjórnandi kórsins sem fædd er í Manchester.
„Það er langt síðan ég fór þangað síðast og þekki ekkert borgina lengur.“
Úti verður sungið með Manchester Community Choir, sem þýða má sem „Samfélagskór Manchester.“ Gillian segir slíka kóra njóta vaxandi vinsælda víða um Bretland. „Hugmyndin er að allir geti verið með í kórunum sama hversu góðir söngvarar þeir eru. Þeir bæta sig bara í kórnum.“
Kórarnir koma fram saman í kirkju í suðurhluta borgarinnar. Þeir syngja hvor sína efnisskrá og svo nokkur lög saman. Að auki er fyrirhugað að kórinn frá Reyðarfirði komi fram óvænt á nokkrum stöðum, svo sem lestarstöðvum.
Segja má að lokaæfing kórsins hafi verið í Eskifjarðarkirkju á sunnudag þegar efnisskráin var sungin fyrir Austfirðinga. Þar mátti finna íslensk dægurlög, Bítlalög og afrísk þjóðlög.
„Við erum ekki með hefðbundin íslensk kóralög. Við völdum bæði gömul og ný lög og kórfélagar settust niður og komu með uppástungur að lögum sem þeim fannst gaman að syngja“