Krossar og þakkir á Skriðuklaustri
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. mar 2013 22:26 • Uppfært 08. jan 2016 19:24
Sunnudaginn 17. mars verða tvær sýningar opnaðar í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri. Um er að ræða páska- og vorsýningar Gunnarsstofnunar.
Í stássstofu verður opnuð sýning á útskornum krossum úr viði og steini eftir Akureyringinn Jón Geir Ágústsson. Sú sýning ber heitið „Krossferli að fylgja þínum“.
Hún var fyrst sett upp á Hólum í Hjaltadal enda mikið af efnivið listamannsins sótt í Hólabyrðu og timburafganga úr Auðunarstofu. Jón Geir hefur allt frá 1982 unnið með krossformið og efniviðurinn er ólíkar viðartegundir, trjábörkur, hvaltönn, messing og sandsteinn.
Í gallerí Klaustri sýnir Sigurður Ingólfsson ljóðskáld eigin teikningar sem m.a. skreyta nýjustu ljóðabók hans. Útgáfu bókarinnar verður fagnað við sýningaropnun en bók og sýning bera sama titil: „Ég þakka“.
Sýningarnar verða opnaðar kl. 14 og eru allir velkomnir. Opið verður á Skriðuklaustri kl. 12-17 sunnudagana 17. og 24. mars og hádegis- og kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. Einnig verður opið um páskana og eru upplýsingar um það á heimasíðunni www.skriduklaustur.is.