Kvikmyndaferilinn hófst á Eiðum

„Eiðaskóli á stóran og merkan þátt í menningarsögu Austurlands sem ber að varðveita,“ segir Guðmundur Bergkvist, einn þeirra sem stendur að gerð heimildarmyndar um Alþýðuskólann á Eiðum sem nú er safnað fyrir á Karolina Fund.


Alþýðuskólinn á Eiðum var fyrsti héraðsskólinn á landinu sem rekinn var í því formi, en í gegnum tíðina hafa nokkur þúsund manns dvalið á Eiðum og numið við skólann. Í myndinni verður farið yfir rúmlega 100 ára sögu skólahalds á staðnum, þar til kennslu var hætt þar, árið 1998.

Fyrsta fræinu sáð á Eiðum
Auk Guðmundar koma þau Björn Jóhannsson, Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir og Bryndís Skúladóttir að gerð myndarinnar.
„Ég var sjálfur nemandi á Eiðum á árabilinu 1987-1990 og gaman er að segja frá því að þar var ég formaður Videoklúbbs skólans og það var Þorvaldur Hjarðar sem kynnti mér fyrir fyrstu videovélinni. Segja má að þar hafi fyrsta fræinu verið sáð sem svo leiddi til þess að ég hef unnið við sjónvarp og sjónvarpsverkefni af ýmsu tagi síðastliðin 20 ár,“ segir Guðmundur, sem er leikstjóri, kvikmyndatökumaður og dagskrárframleiðandi.

Myndin unnin í samvinnu við Eiðavini
Myndin verður unnin í samvinnu við Eiðavini, félag fyrrum nemenda, starfsmanna og íbúa á Eiðum sem stofnað var er skólahaldi þar lauk. Félagið hefur það að markmiði að hefja til vegs og virðingar sögu staðarins sem menntaseturs á Austurlandi og mun því styðja dyggilega við gerð þessarar heimildamyndar.

Heimildarvinna og gagnaöflun eru þegar hafin og handritsskrif eru einnig komin af stað. Tökur á viðtölum og öðru efni hefjast nú í febrúar og munu standa eitthvað fram eftir ári. Áætlað er að klipping hefjist á haustdögum og eftirvinnsla mun fara fram í ágúst og september 2019. Frumsýning verður í október 2019 á afmælishátíð skólans sem Eiðavinir eru byrjaðir að undirbúa.

„Mér þykir vænt um þessa sögu eins og fleirum og vill að hún verði sögð, þó svo vissulega hún hafi komið út í bókum áður. Heimildarmyndin styður og rammar inn aðalmarkmið Eiðavina. Tekin verða viðtöl við fyrrum nemendur og starfsfólk skólans og heyrum alls konar sögur úr lífinu og starfinu við skólann. Einnig munum við grafa upp gamalt efni, bæði ljósmyndir og videoefni, en við heimildarmyndagerð finnst alltaf eitthvað sem legið hefur í geymslu eða á háalofti og enginn hefur séð áður.“

Söfnum á Karolina Fund
Til að standa standa straum af kostnaði og losna við lántökur, stendur nú yfir söfnun í tengslum við verkefnið á Karolina Fund síðunni og mun stjórn Eiðavina halda utan um hana.

„Söfnunin gerir okkur kleift að gera allt sem við ætlun okkur að gera og teljum okkur þurfa að gera til að koma þessu til skila. Við vonum því sannarlega að hún gangi vel.“

Eiðaskóli

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.