Kynna menningu og náttúru Djúpavogs í gegnum bjór

Systurnar Alfa og Rán Freysdætur standa að baki fyrirtækinu Grafít á Djúpavogi sem sérhæfir sig í innanhússhönnun. Þær taka einnig að sér fleiri verkefni svo sem grafíska hönnun og hafa staðið að því að merkja bjórumbúðir heimabænum og selja þar.


„Okkur datt í hug að þetta væri skemmtileg leið til að segja frá náttúru og menningu Djúpavogshrepps, að það gæti komið vel út fyrir ferðamenn að geta keypt bjór og lesið söguna um leið. Þannig byrjaði þetta,“ segja þær.

Þær kaupa öl af brugghúsum og umpakka því í umbúðir sem þær hafa hannað. „Við erum ekki komnar með verksmiðjuna enn,“ útskýrir Alfa.

Fyrst völdu þær þrjú kennileiti hreppsins: Valtýskamb, Búlandstind og Djáknadys en síðan hafa komið bjórar í tilefni 10 ára afmælis Hammond-hátíðar og útgáfu bókarinnar um Hans Jónatan – þrælinn sem stal sjálfum sér. „Hann var að sjálfsögðu dökkur,“ segir Rán.

Ferðamönnum finnst spennandi að fá staðarbjór

Bjórinn fæst eingöngu á Djúpavogi og hefur verið fáanlegur í Löngubúð, Hótel Framtíð og við Voginn. „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Ferðamönnum finnst mjög spennandi að fá staðarbjór og kynna sér um leið kennileitin. Þetta hentar líka vel því þeir eru ýmist á leið í norður eða suður.“

Þær skoða nú hvort ný tegund komi á markaðinn í sumar. „Við erum með höfuðið í bleyti. Í dauða tímanum býr maður sér til eitthvað skemmtilegt að gera.“

Rán segir umbúðahönnunina utan um bjórinn með skemmtilegri verkefnum sem þær hafi lagst í. „Það er hvað skemmtilegast að hafa tekið að sér svona verkefni þar sem maður hefur alveg frjálsar hendur. Þetta er hrein sköpun frá byrjun og það er gaman að vinna með eitthvað svona sem tengist okkur á Djúpavogi. Um leið fer maður að grúska í sögunni og náttúrunni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.