![](/images/stories/news/folk/KOX.jpg)
Langar að mynda yfirgefnar byggingar í Chernobyl
„Hjá mér skiptir engu máli hvernig fólkið er, fjölbreytileikinn er alltaf skemmtilegur,“ segir Kormákur Máni Hafsteinsson, en hann er með ólæknandi ljósmyndabakteríu og starfar sem ljósmyndari hjá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum. Hann er í yfirheyrslu vikunnar.
KOX hefur sinnt ljósmyndabakteríunni í tæp tíu ár og hefur verið iðinn við að framkvæma óhefðbundnar myndatökur.
„Hausinn á mér er alltaf fullur af myndatöku-hugmyndum og ég hlakka agalega til að fara að vinna með skemmtilegu fólki í sambandi við þær. Ég er alltaf tilbúinn til þess að bæta við fólki sem vill taka þátt í tökum, hvort sem það er að vera á myndunum eða bara hjálpa til við undirbúning,“ segir KOX.
Fullt nafn: Kormákur Máni Hafsteinsson (Kox ljósmyndari).
Aldur: 39 ára.
Starf: Ljósmyndari hjá Myndsmiðunni Egilsstöðum.
Maki: Þórunn Stefánsdóttir.
Börn: Ólöf Anna , Hrafnkatla, Steinrún Harpa og Gauti Hrafn.
Hvað finnst þér um þorramat? Gjörsamlega óætur!
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Change (in the house of flies) með Deftones.
Mesta undur veraldar? Börnin mín.
Hver er þinn helsti kostur? Staðfesta/þrjóskur.
Hver er þinn helsti ókostur? Óþolinmæði.
Tækjabúnaður? Canon, Canon og Canon. Mamiya og Pentax í filmunni.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Borgarfjörður að sjálfsögðu.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Brauð, mjólk og filmur.
Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið, birtan maður !
Hvað eldar þú oft í viku? 5-6 sinnum.
Hvað bræðir þig? Að sjá börnin mín brosa.
Syngur þú í sturtu? Nei, myndi ekki leggja það á fjölskylduna.
Settir þú þér áramótaheit? Ætlaði að gera það. En stóð ekki við það.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Þær eru nokkar. Faðir minn og ljósmyndararnir David Bailey, LeTurk og David LaChapelle til að nefna nokkra.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagur því að þá er maður alveg frjáls.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég myndi vilja hitta Þessa ljósmyndara sem ég nefndi hérna að ofan. Maður gæti aldeilis spallað við þá.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Fara til Skotlands, skella mér á workshop hjá LeTurk og svo langar mig einhverra hluta vegna að komast að mynda yfirgefnar byggingar í Chernobyl.
Duldir hæfileikar? Duldir segir þú. Tjah, ætla að halda þeim duldum áfram.
Drauma ljósmyndataka? Úfff þær eru svo margar sem mig langar að framkvæma. Toppurinn væri að vinna að verkefni með LeTurk. Fá að taka þátt í undirbúningi til lokavinnslu. Það væri algjör draumur!
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ég verð að mynda um helgina. Ég ætla að halda áfram með Sirkus/karnival þemað mitt. Fá gott og skemmtilegt fólk í stúdióið mitt í Sláturhúsinu. Og ætli að sunnudagurinn fari ekki eitthvað í það líka.
Facebooksíðu KOX má skoða hér.