Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir Finnska hestinn

Image

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir í kvöld, föstudaginn 21. október, leikritið Finnski hesturinn eftir Sirkku Peltola. Verkið er gamanleikrit þar sem ísköld kaldhæðnin drýpur af hverju strái. Með leikstjórn fer Ásgeir Sigurvaldason. Leikfélagið fagnar 45 ára afmæli sínu í ár og er því sýningin sannkölluð afmælishátið.

Fábrotið landbúnaðarlíf undirlagt af skriffinsku ESB
Í Finnska hestinum segir frá heldur óvenjulegri sveitafjölskyldu sem þarf að takast á við breytingar nútímans þegar Evrópusambandið hefur innreið sína í landið. Hin áður einfalda tilvera sem einkenndi fábrotið landbúnaðarlífið er nú undirlögð af skriffinsku og færibandaframleiðslu. Mótorhjólatöffarinn Kai ákveður í samráði við föður sinn Lassa að svindla sér leið í gegnum regluverkið og flytja hesta úr landi til manneldis. Þegar flutningabíllinn sem átti að flytja hestana fer út af veginum fara hestarnir veg allar veraldar, og þá eru góð ráð dýr.


Ískaldur húmor og kaldhæðni
Ískaldur húmor og kaldhæðni einkennir sýninguna. Höfundurinn, Sirkku Peltola, gerir óspart grín að hinni þunglyndu finnsku þjóðarsál á meinfyndinn og sjálfhæðinn hátt. Það má segja að efnið í leikritinu hafi skýrskotun í íslenskan samtíma þar sem aðlögunar er þörf í kjölfar breyttra tíma.

Glæsileg leikmynd
Stór hópur kemur að uppsetningu sýningarinnar. Leikarar eru sjö talsins en fjöldi manns hefur komið að leikmyndinni á einn eða annan hátt, sem og búningum, ljósum og öðru tilfallandi. Leikmyndin er afar glæsileg og Valaskjálf er nýtt út í ystu æsar. Aðspurður segir leikstjórinn að húsið hafi hentað vel fyrir þessa sýningu, til að mynda sé hægt að koma öllum útisenum fyrir á svölunum. Mjög auðvelt sé að koma frekar flókinni uppfærslu fyrir vegna þess hvernig húsið er smíðað.


„Fólk var þakklátt fyrir leikmyndina“
Ásgeir Sigurvaldason er sannkallaður reynslubolti í leikhúsheiminum. Hann lærði leiklist í Kaliforníu og New York og hefur leikstýrt bæði á Íslandi, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Aðspurður hvernig þessi uppsetning sé í samanburði við annað sem hann hefur gert segir Ásgeir:

„Hvað skal segja. Mér finnst svona stofudrama eins og þetta skemmtilega hefðbundið því nútíminn er orðinn svolítið íhaldssamur. Það er orðið óvenjulegt að gera hluti þar sem eru veggir og hurðir og ekki bara ljós og svart rými. Síðast þegar ég leikstýrði úti á landi var það í Vestmannaeyjum. Þá kom fólk til mín og var þakklátt fyrir að það var komin leikmynd á sviðið. Ég veit að fólk kann að meta það. “


Spannar þrjú kynslóðabil
Finnski hesturinn er verk sem reynir á færni leikaranna. Leikararnir spanna þrjú kynslóðabil og í sýningunni má jafnt sjá reynslubolta og leikara sem eru að taka sín fyrstu skref á sviðinu. Segir Ásgeir það viðeigandi í ljósi afmælisársins að takast á við fullvaxið leikhúsverkefni. „Þetta er í fyrsta skipti sem þetta verk er gert úti á landi og er örugglega stór biti fyrir hvaða áhugaleikhús sem er. Þá er gott að búa að hefðinni.“

Frumsýning er eins og áður segir í kvöld. Sýningarnar fara fram í Valaskjálf og hefjast að öllu jöfnu klukkan 8. Nánari upplýsingar má finna á facebook viðburði sýningarinnar: http://www.facebook.com/event.php?eid=274219245951059 .  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.