Leikskólabörn sungu fyrir bæjarstjórann: Myndband
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. feb 2013 15:07 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Leikskólabörn af Tjarnarbæ/Skógarbæ heimsóttu bæjarskrifstofur Fljótsdalshéraðs í morgun í tilefni af degi leikskólans. Bæjarstjórinn tók á móti þeim í fundarsal bæjarstjórnar og útskýrði hvernig bæjarstjórnarfundir fara fram.
„Af hverju er allt þetta drasl á borðinu,“ var fyrsta spurningin sem Björn Ingimarsson fékk eftir að komið var inn í fundarsalinn. Á fundarborðinu voru ýmsar rafmagns- og tölvusnúrur í flækju.
Björn útskýrði hvernig fundir færu fram, hver sæti hvar og hvernig fundahamar væri notaður til að setja og slíta fundi. Börnin höfðu áhuga á að vita hvað gert væri þegar læti væru á fundum en bæjarstjórinn fullyrti að „það væru eiginlega aldrei læti.“
Sýnt er beint frá bæjarstjórnarfundum á Fljótsdalshéraði og tengist hluti búnaðarins í fundarsalnum útsendingunum. Björn hvatti börnin til að skoða upptökur af fundum og fullyrti að þær væru „skemmtilegri en teiknimyndirnar.“
Krakkarnir sungu þrjú lög fyrir bæjarstjórann og þá starfsmenn bæjarskrifstofanna sem viðstaddir voru í morgun. Söngnum fylgdi áskorun til bæjarfulltrúa um að taka lagið á bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður seinni partinn í dag.









