![](/images/stories/news/2016/leikskolaborn_egs_slokkvilid/leikskolaborn_slokkvilid_0022_web.jpg)
Leikskólabörn útskrifuð sem aðstoðarmenn slökkviliðs – Myndir
Nemendur í elsta árgangi leikskólans Tjarnaskógar á Egilsstöðum heimsóttu á fimmtudag slökkviliðið á Egilsstöðum og fengu að prófa búnað liðsins. Heimsóknin var lokahnykkurinn í eldvarnaátaki sem unnið hefur verið með leikskólanum í vetur.
Með fræðslu leikskólabarnanna hefst eldvarnafræðsla sem heldur áfram í gegnum grunnskólann. „Það er mjög gaman að kveðja tíunda bekkinn sem maður er búinn að fylgja í gegnum alla fræðsluna“ segir Baldur Pálsson slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.
Brunavarnir á Austurlandi er sameiginlegt félag Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðarhrepps, Fljótsdalshrepps, Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps. Baldur hefur í vetur ferðast á milli skóla í sveitarfélögunum og á vordögum eru börnin útskrifuð.
„Þetta er verkefni sem unnið hefur verið á landsvísu undanfarin ár. Krakkarnir hafa verið að skoða eldvarnir heima hjá sér og í skólanum.
Þau fara með möppu heim til sín og í mánaðarlega um leiksólann til að kanna hvort eldvarnabúnaður í skólanum sé ekki í lagi. Ef hann er ekki í lagi þá láta þau vita til sveitarfélagsins.
Núna kveðjum við þau á slökkvistöðinni með að sýna þeim búnað og tæki. Þau útskrifast með heiðursskjali, árituðu af slökkviliðsstjóra sem aðstoðarmenn slökkviliðs. Við erum komnir með varðlið inn á hvert heimili þar sem þessi börn eru.“
Krakkarnir fengu að prófa ýmsan búnað, sprauta vatni, setja á sig hjálm og fara upp í körfubíl. Baldur segist ánægður með verkefnið. „Það sannar sig alltaf betur og betur að þessi elsti árgangur leikskólanna er algjörlega móttækilegur fyrir námsefninu.“