Lið Egilsstaða meistari í spurningakeppni fermingarbarna þriðja árið í röð
Úrslit í spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi 2012-2013 fóru fram sunnudaginn 10. febrúar í Eskifjarðarkirkju og voru hluti af dagskrá æskulýðsmótsins í Fjarðabyggð um helgina. Keppnin var hörð og spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu spurningu!
Það var lið Egilsstaðaprestakalls sem bar sigur úr býtum að lokum og var það skipað Ásu Þorsteinsdóttur, Eysteini Einarssyni og Guðmundi Davíðssyni. Í öðru sæti varð lið Hofsprestakalls, skipað Hugrúnu Ingólfsdóttur, Unnari S. Halldórssyni og Viktori Má Heiðarssyni. Í þriðja sæti varð lið Eskifjarðarkirkju sem þau Dagný Freyja Guðmundsdóttir, Jökull Logi Sigurbjarnarson og Sóley Arna Friðriksdóttir skipuðu. Fjögur lið unnu sér þátttökurétt í úrslitunum en sameiginlegt lið Heydala- og Djúpavogsprestakalla dró sig úr keppni vegna forfalla.
Skálholtsútgáfan og ýmis fyrirtæki á Austurlandi gáfu verðlaun en sigurliðið ár hvert hlýtur einnig farandbikar til varðveislu í ár. Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og hefur lið Egilsstaðakirkju/Egilsstaðaprestakalls farið með sigur af hólmi öll árin. Spyrill í ár var Hjalti Jón Sverrisson.
Undanriðlar spurningakeppninnar fara að jafnaði fram í fermingarbúðum á Eiðum á haustin en úrslitakeppnin er svo haldin snemma á vorönn. Um helmingur spurninga er úr efni fermingarfræðslunnar en hinn helmingurinn tengist almennri þekkingu s.s. á íþróttum, landafræði og sjónvarpsefni. Það er Prestafélag Austurlands sem stendur að keppninni.