Skip to main content

„Líf mitt er í biðstöðu“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. sep 2016 08:36Uppfært 30. sep 2016 08:37

„Fyrstu merki voru þau að ég fékk lítið sár við augað í apríl fyrir rúmu ári en í september í fyrra vaknaði ég einn daginn eins og einhver hefði kýlt mig, ógeðslega bólgin í andlitinu og allt í bulli,“ segir reyðfirðingurinn Berglind Ósk Guðgeirsdóttir sem barist hefur við óútskýrð og erfið veikindi í rúmt ár, en hún er í ítarlegu opnuviðtali Austurgluggans sem kemur út í dag.



Sjúkrahúsin full af gömlu fólki sem bíður dauðans

Berglind Ósk hefur gengið á milli alls konar lækna síðastliðið ár, ofnæmis-, gigtar-, hjarta- og nýrnalækna. „Ég hef farið í alls konar ofnæmispróf og sértæk ofnæmispróf sem ekkert kemur út úr nema smávegis ofnæmi fyrir grasi og dökkum háralit, sem meikar ekki sens þar sem ég lita ekki og þetta blossar upp hvenær sem er.“

Berglind segir að nú sé svo komið að enginn viti hvort það séu lyfin eða veikindin sjálf sem valdi öllu saman en hún tekur mikið af lyfjum, meðal annars sterum og líffæraþegalyfjum sem halda niðri einkennunum. Aukaverkanirnar af þeim eru miklar og bæla niður ónæmiskerfið þannig að hún er mjög næm fyrir öllum umgangspestum. Hún nærist illa, sefur lítið, á erfitt með að hreyfa sig og er undirlögð af liðverkjum.

„Ef ég hins vegar sleppi því að taka lyfin blæðir og vessar úr andlitinu á mér og mikill hiti verður í sárunum þannig að ég get ekki án þeirra verið. Planið hefur verið að koma mér inn á Landspítalann í svokallaða uppvinnslu, þar sem ég er tekin af öllum lyfjum og byrjað upp á nýtt. En það er ekki pláss því að sjúkrahúsin eru full af gömlu fólki sem hafa engin önnur úrræði en að vera þar og bíða eftir dauðanum. Staðan er því sú að ef það losnar pláss er það vegna þess að einhver deyr og það vil ég ekki.


Fáránlega þakklát fyrir að vera til

Ég er á leiðinni á Reykjalund í endurhæfingarmat og ég vona að þeir átti sig á því að ég er 34 ára manneskja sem lifir lífi níræðrar manneskju án þess að nokkuð sé verið að gera í mínum málum. Mig langar að lifa lífinu og gera einhver plön, en til dæmis er ekki möguleiki fyrir mig að verða ólétt eins og staðan er í dag og mig langar ekki að standa í barneignum eftir fertugt. Því miður sé ég ekki fram á að komast inn á Landspítalann á næstunni og má því segja að líf mitt sé í biðstöðu.“

Hvernig fer maður að því að halda jafnaðargeði í gegnum slíkar hremmingar? „Ég hef komið sjálfri mér virkilega á óvart, ég vissi ekki að ég væri þolinmóð en þetta tímabil hefur kennt mér það. Andlega hliðin hefur verið merkilega góð, ég er bara svo fáránlega þakklát fyrir að vera til – af hverju að vera með óþarfa fýlu, drama og neikvæðni þegar hægt er að verja tímanum í að líða vel, ég kýs það allavega frekar. Auðvitað koma dagar þegar mér líður rosalega illa og ég finn mikið til og þá verð ég fúl út í heiminn en þetta truflar mig þó alveg merkilega lítið. Auðvitað verður gott þegar þetta verður liðið hjá en það þýðir samt ekki að bíða eftir að sá dagur renni upp heldur reyna að gera það besta úr ferðalaginu þangað líka.“