Skip to main content

Lífga upp á bæjarlífið með litlum markaði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. des 2020 11:10Uppfært 11. des 2020 14:56

Átta smáframleiðendur munu selja vörur sínar á svokölluðum pop-up markaði við Hús handanna á Egilsstöðum á morgun. Stjórnandi verslunarinnar segir markaðinn viðleitni í að lífga upp á bæinn þessa dagana.


„Við höfum undanfarin ár verið með mánaðarlega markaði á laugardögum og svo þéttar í desember þar sem við höfum boðið nokkrum framleiðendum að koma og selja vörur sínar.

Það græða allir á þessu. Þeir koma vörum sínum á framfæri, við fáum umferð um búðina okkar því fólk kíkir líka við í henni og svo er gaman að geta lífgað aðeins upp á bæjarlífið.

Við nýtum anddyrið sem við höfum í húsinu, gerum það jólalegt og reynum að láta jólatónlistina berast út á götu,“ segir Lára Vilbergsdóttir, framkvæmdastjóri Húss handanna.

Á boðstólunum á morgun verða bæði matvörur og handverk frá framleiðendum á borð við Félagsbúið Lindarbrekku í Berufirði, Kalla Sveins á Borgarfirði, Sauðagull úr Fljótsdal, Geitagott úr Skriðdal, Ásheimum geðræktarmiðstöð, Sibbu skógarbónda, Emmu Charlottu og Soroptimista. Opið verður frá 12-18.

Undanfarin ár hefur verið hefð fyrir stórum jólamarkaði undir merkjum Jólakattarins á Egilsstöðum, en af honum verður ekki í ár vegna samkomutakmarkana. Lára segir markaðinn á morgun viðleitni sem kom þó alls ekki í stað stóra markaðarins. Í Níunni sé aðeins pláss fyrir 5-10 söluaðila og það pláss hafi verið nýtt síðustu ár samhliða Jólakettinum.

Rýmri sóttvarnareglur gera markaðinn mögulegan en heimilt er að hafa fimm manns í einu á 10 fermetrum í verslunarrými. Lára segist þó ekki stefna á að fullnýta allt það rými sem sé til staðar er heldur hafa að hámarki 60 manns í einu samanlagt í anddyrinu og verslun Húss handanna. Fyrirkomulagið hefur verið borið undir og hlotið samþykki aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Þá verður grímuskylda á svæðinu, spritt til staðar og fólki ráðlagt að halda tveggja metra fjarlægð milli ótengdra aðila.