Lífga upp á bæjarlífið með litlum markaði

Átta smáframleiðendur munu selja vörur sínar á svokölluðum pop-up markaði við Hús handanna á Egilsstöðum á morgun. Stjórnandi verslunarinnar segir markaðinn viðleitni í að lífga upp á bæinn þessa dagana.

„Við höfum undanfarin ár verið með mánaðarlega markaði á laugardögum og svo þéttar í desember þar sem við höfum boðið nokkrum framleiðendum að koma og selja vörur sínar.

Það græða allir á þessu. Þeir koma vörum sínum á framfæri, við fáum umferð um búðina okkar því fólk kíkir líka við í henni og svo er gaman að geta lífgað aðeins upp á bæjarlífið.

Við nýtum anddyrið sem við höfum í húsinu, gerum það jólalegt og reynum að láta jólatónlistina berast út á götu,“ segir Lára Vilbergsdóttir, framkvæmdastjóri Húss handanna.

Á boðstólunum á morgun verða bæði matvörur og handverk frá framleiðendum á borð við Félagsbúið Lindarbrekku í Berufirði, Kalla Sveins á Borgarfirði, Sauðagull úr Fljótsdal, Geitagott úr Skriðdal, Ásheimum geðræktarmiðstöð, Sibbu skógarbónda, Emmu Charlottu og Soroptimista. Opið verður frá 12-18.

Undanfarin ár hefur verið hefð fyrir stórum jólamarkaði undir merkjum Jólakattarins á Egilsstöðum, en af honum verður ekki í ár vegna samkomutakmarkana. Lára segir markaðinn á morgun viðleitni sem kom þó alls ekki í stað stóra markaðarins. Í Níunni sé aðeins pláss fyrir 5-10 söluaðila og það pláss hafi verið nýtt síðustu ár samhliða Jólakettinum.

Rýmri sóttvarnareglur gera markaðinn mögulegan en heimilt er að hafa fimm manns í einu á 10 fermetrum í verslunarrými. Lára segist þó ekki stefna á að fullnýta allt það rými sem sé til staðar er heldur hafa að hámarki 60 manns í einu samanlagt í anddyrinu og verslun Húss handanna. Fyrirkomulagið hefur verið borið undir og hlotið samþykki aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Þá verður grímuskylda á svæðinu, spritt til staðar og fólki ráðlagt að halda tveggja metra fjarlægð milli ótengdra aðila.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.