Listflug það næst skemmtilegasta sem hægt er að gera í lífinu – Myndir
Listflug á 35 ára gamalli vél frá Sovétríkjunum var í huga margra hápunktur opnunarhátíðar endurbætts Norðfjarðarflugvallar á sunnudag. Miklir kraftar reyna á flugmann vélarinnar í fluginu.
„Það næst skemmtilegasta sem maður gerir í lífinu er að fljúga listflug. Það veitir mér mikla útrás,“ segir Snorri Bjarnvin Jónsson, flugmaður sem sýndi listir sínar á Norðfjarðarflugvelli.
Snorri stýrði tveggja sæta Yak-52 flugvél sem smíðuð var í Sovétríkjunum árið 1982. Slíkar vélar voru notaðar til þjálfunar orrustuflugmanna áður en þeir færðu sig yfir á MIG-21 þotur.
Vélin er með 9 strokka stjörnumótor sem er 360 hestöfl. „Hún er þung og sterkbyggð en það er leyst með að setja öflugan mótor fram í hana,“ segir Snorri.
Vélin hefur verið í eigu Flugklúbbs alþýðunnar í Reykjavík undanfarin ellefu ár en Snorri er þar einn af 25 félagsmönnum. Klúbburinn á aðra Yak-52 vél en sú er fjögurra sæta. Flugið á sunnudag var samt ekki fyrir farþega.
„Ég fór í 5,5g, kraftarnir sem virka á mig eru 5,5 sinnum líkamsþyngd mín. Ég byði ekki nokkrum manni upp á þetta flug. Ég flýg mjúkar ef aðrir eru með mér.
Maður myndar þol fyrir þessu þyngdarafli. Sumir þola það vel, aðrir ekki. Ég þoli það vel. Hafi ég hins vegar ekki flogið listflug í fjóra mánuði er ég kominn úr æfingu og þá get ég fengið óþægindi og jafnvel sortnað fyrir augum.“
Vildi geta flogið á hverjum degi
Snorri lærði listflug af rússneskum flugmanni sem tvívegis hefur komið til Íslands til að kenna það. Aðstæður á Íslandi gera það að verkum að ekki er hægt að fljúga það alltaf þegar menn vilja.
„Hann þjálfaði mig aðallega í spinnum. Hann fór yfir hvað vélin og hvað hún getur ekki, hvar hún ofrís, hvernig hún fer í spuna, hverju er hægt að ná úr úr henni, hvernig og hvenær.
Það er ekki hægt að æfa sig jafn mikið hér og í útlöndum. Ég vildi fljúga listflug á hverjum degi en það kostar auk þess veðurfarið hér hefur sín áhrif.
Eitt af því sem kostar er ávaxtaolía sem notuð er til að gera reykinn sem verður svo áberandi í kringum vélina. „Það er tankur fyrir aftan sætin og þaðan er olíunni dælt á púströrin. Þegar olían snertir heit rörin myndast reykurinn. Í borðinu hjá mér er takki fyrir pumpuna og það var erfast í 5,5 g var að lyfta hendinni til að slökkva á reyknum. Olían er dýr, ég var með 20 lítra og hver lítri kostar 1000 krónur.“
Opnunin var að hluta skipulögð af Flugfélagi Austurlands og notuðu austfirskir flugvélaeigendur tækifærið til að fljúga rellum sínum í Norðfirði. Nokkrir þeirra buðu upp á útsýnisflug með áhugasama. Þá var sjúkraflugvél Mýflugs á svæðinu og gátu áhugasamir skoðað hana, sem og fleiri vélar.