„Lít á blaðið sem viðbót við það sem fyrir er“

Arnaldur Máni Finnsson hefur verið ráðinn nýr ritstjóri Austurlands, landshlutablaðs Vefpressunnar.



Arnaldur Máni er guðfræðingur að mennt. Hann er búsettur á Egilsstöðum, í sambúð með Körnu Sigurðardóttur og á tvo syni.

Arnaldur Máni er ekki ókunnur fjölmiðlum og hefur meðal annars verið blaðamaður hjá BB á Ísafirði, ritstýrt Orðinu og var nú síðast fréttamaður RÚV - Austurlandi. Hann tekur við blaðinu af Sigurði Ingólfssyni um næstu mánaðamót.

„Ég lít á þetta sem gott tækifæri til að reyna koma saman blaði þar sem raddir margra fá að hljóma og efnistökin eru nokkuð frjálsari en á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Mannlegu fréttirnar héðan að austan eru alveg jafn mikilvægar og áhugaverðar og þær sem við fáum daglega að heyra frá höfuðborgarsvæðinu og gott tækifæri að koma þeim með bjartsýnum tóni inn á hvert heimili á Austurlandi.

Að mínu mati hafa fjölmiðlar á Austurlandi hver sitt hlutverk og þurfa ekki að vera í samkeppni heldur að vinna saman sem sterk heild. Ég er ekki að fara að keppa beint á fréttamarkaði svæðisins, heldur lít á blaðið sem viðbót við það sem fyrir er.

Ég stefni á að þematengja blaðið hverju sinni eftir því sem það er hægt og tala þá við allskonar fólk, vítt og breitt um Austurland í tengslum við hvert efni. Fyrsta tölublaðið verður tileinkað sjómönnum og sjómannadeginum,“ segir Arnaldur Máni.

Arnaldur Máni segir að töluvert hafi vantað upp á að Austurland hafi orðið hluti af fjölmiðlaflóru fjórðungsins og frekar verið litið á það sem utanaðkomandi blað. „Þessu vil ég snúa við og held að leiðin til þess sé að auka tengslin og vera í góðu sambandi við fólk á svæðinu og hvet ég íbúa til þess að senda mér ábendingar varðandi efnistök.“

Útgáfusvæði Austurlands nær sunnan frá Höfn í Hornafirði norður til Vopnafjarðar og er blaðinu dreift í öll hús á þessu svæði.

Hægt er að senda efni og ábendingar til nýs ritstjóra á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.