![](/images/stories/news/2014/ljodahatid_2014.jpg)
Litla ljóðahátíðin: Ekki gott að festa viðburði í sessi með að gera alltaf eins
Litla ljóðahátíðin í Norðausturríki kemur við á þremur stöðum á Austurlandi um helgina en hún hefur þó aldrei komið við á neinum þeirra áður. Skipuleggjandi segir einn það eitt af grunnatriðum hátíðarinnar að breyta henni á hverju ári.„Það er lítið gaman ef menningarviðburðir festa sig í sessi með að gera alltaf sama hlutinn aftur og aftur. Þetta er leið til að tryggja að það sé nóg að gerast á öllum þessum stöðum,“ segir Hjálmar S. Brynjólfsson, einn aðstandenda hátíðarinnar.
Hátíðin verður eystra á laugardag og sunnudag en þá verður komið við á Skriðuklaustri, Norðfirði og Karlsstöðum í Berufirði. Í kvöld og á morgun verður stoppað á Siglufirði, Akureyri og í Hrísey.
Ljóðskáldin sem koma fram á hátíðinni í ár eru Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Kristín Ómarsdóttir og Jón Örn Loðmfjörð en þau eru annað hvort að senda frá sér nýjar bækur um þessar mundir eða eru nýlega búin að því.
Þau eru lögð af stað í hringferð um landið á níu manna rútu ásamt forsprökkum hátíðarinnar. „Þetta er svona vegaljóðahátíð,“ útskýrir Hjálmar.
„Við fyllum ljóðarútuna af skáldum og keyrum hringinn. Það gerir hátíðina öðruvísi og sérstaklega skemmtilega. Þetta er ekki bara eitt kvöld heldur eyðum við saman nokkrum dögum.“
Á flestum bætast svo við ljóðskáld úr hópi heimamanna. Borgfirðingur Ásgrímur Ingi Arngrímsson verður með á Akureyri, Steinunn Ásmundsdóttir á Skriðuklaustri og Jóhann Valur Klausen, sem sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók í vikunni, á Norðfirði.
„Þetta er prýðileg leið til að allir kynnist. Stemmingin í hópnum er ljómandi góð, gott jafnvægi í hópnum og bíllinn gengur. Þetta ein víðfeðmasta ljóðahátíð sem fyrirfinnst.“