Lokun Svæðisútvarps á Austurlandi mótmælt
Boðað var til mótmælafundar vegna lokunar Svæðisútvarps Austurlands í dag. Um eitthundrað manns voru á fundinum þegar flest var.Fundurinn hófst fyrir utan húsakynni Svæðisútvarpsins þar sem fólk safnaðist saman. Síðan var gengið fylktu liði yfir í Hótel Hérað hvar eð nýlokið var Þjóðfundi, þar sem leitað var helstu sókarfæra fyrir Austurland. Það fannst fundarmönnum á mótmælafundinum táknrænt, að heimamenn væru að leita tækifæra fyrir sína heimabyggð, í sama mund og úr suðrinu bærust boð um að loka skuli Svæðisútvarpi Austurlands.
Á Hótel Héraði voru staddir ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Kristján L. Möller samgönguráðherra. Eini þingmaðurinn sem heiðraði Austurland með nærveru sinni í dag, var af einhverjum ástæðum horfinn af vettvangi.
Ráðherrar tóku mótmælendum vel, Steingrímur spurði þó, sennilega meira í gamni en alvöru ,,Hvar eru eggin". Aðalsteinn Þórhallsson las, eftirfarandi ályktun fundarins fyrir ráðherrana og aðra viðstadda.
Ráðherrarnir svöruðu síðan fyrirspurnum fundarmanna, þrátt fyrir að fundarmenn teldu fátt um svör, lofuðu ráðherrarnir að taka málið til athugunar og samgönguráðherra benti fundarmönnum að biðja um fund með útvarpsstjóra og stjórn Ríkisútvarpsins ohf.
Ályktun fundarins:
„Austfirðingar eru æfir vegna lokunar Svæðisútvarps Austurlands!
Ríkisútvarpið er stendur ekki lengur undir nafni sem útvarp allra landsmanna.
Uppsögn allra starfsmanna utan eins á Svæðisútvarpi Austurlands gera því ókleyft að sinna skyldum sínum gagnvart íbúum svæðisins og landsmönnum öllum.
Það kann að vera óhjákvæmilegt að grípa til uppsagna á tímum niðurskurðar en engu að síður koma þessar uppsagnir sérlega illa við okkur austfirðinga.
Stutt er frá því að afnotagjöldum Ríkisútvarpsins var breytt með lögum frá Alþingi í nefskatt sem ríkið innheimtir. Slíkt hefði átt að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins en nú hefur Alþingi ákveðið að ráðstafa 10% skattsins með öðrum hætti og vega þannig harkalega að fréttaflutningi af landsbyggðinni og þar með draga verulega úr getu þess til að sinna lögbundnu og lýðræðislegu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. Á sama tíma er verið að fella niður stórfelldar skuldir einkarekinna fjölmiðla við banka í opinberri eigu sem ekki hafa lögboðnar skyldur um fréttamiðlun og öryggi landsmanna.
Forgangsröðunin er kolröng hjá 101. Ofuráhersla á beinar útsendingar frá alls kyns viðburðum með til heyrandi kostnaði en ávallt skorið á fréttaflutning af landsbyggðinni. Fyrirséð að hann muni leggjast af með öllu. Með slíkri skerðingu er vegið að atvinnu og lífsgæðum íbúanna.
Svæðisbundnar fréttir hafa gegnt lykilhlutverki í markaðssetningu ferðaþjónustu innanlands auk þess að leggja ríkulega til samstarfs og samhyggðar íbúa í hinum dreifðari byggðum.
Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að tryggja eðlilegt aðhald fjölmiðla að pólitískum fulltrúum og ákvörðunum þeirra. Með aftöku svæðisútvarpsins hefur þessi sjálfsagða samtrygging okkar verið afnumin.
Nefskattur austfirðinga til Ríkisútvarpsins nemur að lágmarki 150 milljónum króna á ári og auglýsingatekjur af svæðinu, bæði á svæðisútvarpi, samlesnum rásum og skjá eru umtalsverðar.
Við gagnrýnum harðlega aðför hins nýstofnaða opinbera hlutafélags, Ríkisútvarpsins að störfum í fjórðungnum.
Þau 4-5 störf sem hér nú er verið að leggja niður, jafngilda 60-75 störfum á SV-horni landsins, sé mið tekið af okkar frábæra höfðatöluútreikningi!
Við krefjumst þess að Útvarpsstjóri geri okkur íbúum á Austurlandi, hluthöfum í Ríkistútvarpinu ohf. grein fyrir ákvörðun sinni og skýri um leið með hvaða hætti Ríkisútvarpið hyggst sinna lögboðnum skyldum sínum gagnvart Austfirðingum sem og öðrum íbúum utan höfuðborgarsvæðisins.
Lifi svæðisútvarpið!"