Lonely Planet velur Skálanes sérstæðasta gististaðinn á Íslandi

Skálanessetur yst í Seyðisfirði trónir á toppi nýs lista ferðahandbókar Lonely Planet yfir sérstæða gististaði á Íslandi. Setrið er í öðru sæti yfir áhugaverðustu staðina til að skoða.


„Þið haldið kannski að Seyðisfjörður sé endastöð en það er hægt að komast lengra,“ eru upphafsorð lýsingar ferðabókarinnar á Skálanesi sem er 19 km fyrir utan kaupstaðinn.

„Einangrun þess og tilraunakennd náttúra (staðurinn er markaðssetur sem lærdómssetur en ekki hefðbundið gistiheimili) höfðar til náttúruunnenda. Við mælum með nokkurra daga dvöl,“ segir enn fremur.

Staðurinn trónir sem fyrr segir á toppi listans yfir sérstæða gististaði. Austurland á annan fulltrúa þar, Silfurberg á Þorgrímsstöðum í Breiðdal sem er lýst sem lúxusgististað í breiðum dal með yndislegu útsýni.

Á listanum yfir skemmtilegustu staðina til að skoða er Skálanes í öðru sæti á eftir Jökulsárlóni en á undan Hallgrímskirkju.

Í tilkynningu á Facebook-síðu Skálanesseturs er þeim sem komið hafa að uppbyggingu seturs þökkuð fyrir stuðninginn í gegnum árin. Þar segir þó að valið kunni að vera tvíbent þar sem nú skapist auknar væntingar frá heiminum í kring.

Lonely Planer er stærsti útgefandi ferðabóka í heiminum en heldur einnig úti umfangsmikilli stafrænni miðlun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.