Skip to main content

Lævirkinn fékk sérstök verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. feb 2013 12:42Uppfært 08. jan 2016 19:23

laevirkinn_kjuregej_albumcover.jpg
Lævirkinn, plata söngkonunnar Kjuregej Alexöndru Argunovu fékk sérstök verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum sem afhent voru í síðustu viku. Platan var tekin upp á Austurlandi með austfirskum tónlistarmönnum.

„Það er sameiginlegt mat dómnefnda Íslensku tónlistarverðlaunanna 2012 að Lævirkinn falli ekki að hefðbundnum tónlistarflokkum verðlaunanna en að hér sé á ferð framúrskarandi verk sem hljóta skuli sérstaka viðurkenningu dómnefnda,“ segir í viðurkenningu.

Undir hana rita Andrea Jónsdóttir, formaður dómnefndar í popp- og rokkflokki, Vernharður Linnet fyrir hönd djass- og blúsnefndar og Helgi Jónsson sem leiddi dómnefndina í sígildri- og samtímatónlist.

Kjuregej kemur frá Jakútíu, sjálfsstjórnarsvæði inni í miðri Síberu en hún giftist Íslendingi og hefur búið hér á landi í nærri hálfa öld.

Þetta er fyrsta plata hennar. Upptökustjórn var í höndum Halldórs Waren sem spilar á plötunni með Charles Ross. Platan var tekin upp á Egilsstöðum á árunum 2009-11.

Á henni er að finna jakútísk þjóðlög en einnig rússnesk og íslensk. Platan fékk mjög góðar viðtökur gagnrýnenda eftir að hún kom út í fyrra.