Macho Man ferðast um Austurland

„Við Saga (dansarinn í sýningunni) sýndum saman í hliðarprógrammi á Einstaflugi árið 2013, ásamt því að hún hefur verið að kenna við L.ung.A skólann á Seyðisfirði síðustu ár. Þar kemur tengin okkar við Austurland.

Í fyrra vorum við síðan fyrir vestan að sýna Macho Man og þá kom upp áhugi á því að fara á fleiri staði á landinu. Það er svo hressandi að hitta nýja áhorfendur,“ segir Katrín Gunnarsdóttir, danshöfundir dansverksins Macho Man sem sýnt verður á Austurlandi dagana 25. – 28. október.

Pungsveitt veröld mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappi

Dansverkið Macho Man var tilnefnt til menningarverðlauna DV árið 2016 í flokki danslistar, ásamt því að hljóta tvær tilnefningar Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaunanna. Verkið var frumsýnt á sameiginlegri hátíð Lókal og Reykjavík Dance Festival árið 2015, auk þess að hafa meðal annars verið sýnt á Act Alone einleikjahátíðinni á Suðureyri og í Mengi í Reykjavík.

„Í dansverkinu stígur Saga Sigurðardóttir dansari á svið og galdrar fram tvíræðan heim þar sem karlmannlegar hreyfingar eru nýttar til að skapa samhljóm á milli kvenkyns dansara og þess hreyfimynsturs sem við kennum við karlmennsku. Pungsveitt veröld mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappi eru meðal þeirra hreyfinga sem sjá má í verkinu,“ segir Katrín.

Hlaut Grímuna árið 2017


Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur hefur með frumlegum og djörfum sýningum vakið verðskuldaða athygli hér heima og erlendis. Katrín hlaut Grímuna sem dansari ársins 2017 fyrir verk sitt Shades of History og var einnig tilnefnd til Menningarverðlauna DV árið.
Sýningarferðalag Macho Man um Austurland er stutt af Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði og samfélagssjóði Alcoa.

Þeir staðir sem Macho Man mun heimsækja eru:
26. október - Valhöll á Eskifirði
27. október - Herðubreið á Seyðisfirði
28. október - Sláturhúsið á Egilsstöðum
Sýningarnar hefjast kl: 20:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.