„Maður vaknar ekkert einn daginn og ákveður að það sé góð hugmynd að verða kona“

Veiga Grétarsdóttir, sem búsett er á Reyðarfirði, segir sig aðeins hafa átt tvo kosti, annað hvort að gangast undir kynleiðréttingaferli eða taka sitt eigið líf. Veiga er í ítarlegu viðtali í Austurglugganum.



Veiga, sem ólst upp á Ísafirði sem strákurinn Grétar Veigar, segir að hún hafi fundið það strax um ellefu ára aldurinn að hún var ekki eins og flestir, hún var öðruvísi.

„Ég fann mikla þörf fyrir að klæða mig í kvenmannsföt og leitaði í það á sama tíma og ég upplifði mikla skömm vegna þess. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var, hafði hvorki aðgang að interneti eða bókum til þess að lesa mér til. Ég vissi ekki að þetta hefði nafn, hélt ég væri ein í heiminum. Það eina sem ég vissi var að þetta var ekki eðlilegt og ég yrði að fela þetta.“

Þörfin var alltaf til staðar en mis mikil eftir tímabilum.

„Mig langaði alltaf til þess að klæða mig upp en hafði ekki mörg tækifæri til þess þegar ég bjó í foreldrahúsum. Ég eignaðist annað slagið föt sem ég faldi hingað og þangað, gekk meira að segja svo langt að skrúfa í sundur húsgögn til þess að ekkert kæmist upp, það var mikið laumuspil í kringum þetta. Ég hélt svo reglulega fatabrennur þar sem ég tók öll fötin og kveikti í þeim um leið og ég sagði sjálfri mér að þetta gengi ekki og ég yrði bara að halda áfram að lifa eðlilegu lífi.“

Veiga á tvö börn úr tveimur samböndum en það seinna endaði árið 2014 þegar hún ákvað að ganga alla leið og hefja kynleiðréttingaferli, en hún segir aðeins tvennt hafa verið í stöðunni.

„Mér finnst ég hafa haft tvo valkosti, annaðhvort að fara alla leið eða taka mitt eigið líf. Það var ekkert annað í stöðunni, ég var komin alveg á botninn.

Það myndi enginn maður ganga í gegnum þetta „af því bara“. Maður vaknar ekkert einn daginn og ákveður að það sé góð hugmynd að verða kona. Ég þekki nokkra náið sem eru í minni stöðu eða sem eru búnir með ferlið. Það er sama við hvern maður talar í sömu stöðu, allir hafa sömu sögu að segja, þetta eru bara eins og tvö tannhjól sem smella saman.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Austurglugganum sem kemur út í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.