
Marie Claire segir besta morgunverðinn vera á Öldunni
Blaðmaður bresk/franska tímaritsins Marie Claire segist hvergi hafa komist í betri morgunmat heldur en á Hótel Öldunni á Seyðisfirði. Farið er fögrum orðum um Austurland í grein á vef blaðsins.Yfirskrift greinarinnar er „Af hverju þú verður að skoða Austurland áður en allir aðrir gera það“ en blaðamaður og ljósmyndari frá tímaritinu heimsóttu fjórðunginn fyrir nokkru vikum.
Blaðamaðurinn byrjar greinina á að segja að svo virðist sem allir séu á Íslandi um þessar mundir, hún sé búin að missa töluna á myndunum frá landinu sem hún sjái á Instagram og líði eins og hún sé búin að skoða Reykjavík og fara Gullna hringinn áður en hún komi til landsins.
Því hafi hún gripið tækifærið til að heimsækja hið ósnortna Austurland fegins hendi og komist að raun um að þar sé margt fleira að finna heldur en bara landslagið.
Fyrsta daginn er farið í Óbyggðasetrið í Fljótsdal og horft á norðurljósin úr nýopnaðri stjörnuskoðunarstöð. Blaðamaðurinn ruglast reyndar aðeins og talar um dalinn sem fjörð.
Á öðrum degi er farið til Seyðisfjarðar sem sé vel þess virði að heimsækja fyrir aðdáendur glæpaþátta á borð við Glæpinn og Twin Peaks. Hótel Aldan fær háa einkunn, sérstaklega fyrir morgunmatinn sem blaðamaðurinn lofar sem þann besta sem hann hafi á ævi sinni fengið.
Hann hrósar einnig útsýningu yfir Lónið og regnbogalitaðri Norðurgötunni sem sé frábær verslunargata.
Þriðja daginn er síðan farið yfir á Norðfjörð og dvalið á Hótel Hildibrand. Hestaferð á Skorrastað er talin ómissandi í fylgd hins litríka Dodda og fjölskyldu hans sem kunni margar góðar sögur.