![](/images/stories/news/2016/stefan_bogi_john_oliver.jpg)
Mamma prjónaði peysuna: Eðlilegt að Sigmundur stígi einnig til hliðar sem formaður
Framsóknarmanninum Stefáni Boga Sveinssyni var nokkuð brugðið í morgun í morgun þegar hann komst að því að hann hafði verið sýndur í umfjöllun sjónvarpsþáttar John Oliver um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann telur eðlilegt að formaður flokksins stígi til hliðar eftir atburði síðustu viku til að endurheimta trúverðugleika hans.
„Ég fékk vægt áfall fyrst í morgun en varð síðan glaður. Það eru ekki allir sem fá að koma fyrir í sínum uppáhalds sjónvarpsþætti,“ sagði Stefán Bogi í útvarpsþættinum Harmageddon á X-977 í morgun.
Grínistinn John Oliver fjallaði um afsögn forsætisráðherra í sjónvarpsþætti sínum sem sendur var út í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Klippan um Ísland hefur farið víða en henni lýkur á að Oliver telur upp það sem hann telur líklega goggunarröð þeirra sem tekið geti við af forsætisráðherra landsins: sjávarútvegsáðherra, ráðherra lakkrísvíns, álfa og karlmaður í ullarpeysu sem virðist hafa lágmarks áhuga á stjórnmálum.
Oddviti framsóknarmanna á Héraði hefur hins vegar meira en lítinn áhuga á stjórnmálum og í viðtalinu á Harmageddon var hann spurður út í stöðu Sigmundar Davíðs en Stefán Bogi opinberaði um miðja síðustu viku að hann styddi ekki Sigmund sem forsætisráðherra.
„Ég fer ekki í launkofa með að ég held að það sé góð ákvörðun hjá honum að stíga til hliðar og eðlilegt að hann stígi einnig til hliðar sem formaður.“
Stefán Bogi sagði að skiptar skoðanir væru innan flokks á stöðunni eftir atburði síðustu viku og hver og einn ætti rétt á sinni skoðun. Mikilvægt sé að bregðast við þegar atburðir hafi afgerandi áhrif á traust og trúverðugleika.
„Ef traustið fer þarf að bregðast við í samhengi við það og það hefur Framsóknarflokkurinn gert. Formaðurinn hefur stigið til hliðar. Flokkurinn hefur sýnt að hann bregst við. Forustan var til dæmis endurnýjuð alveg eftir hrun.“
Ullarpeysumálið virðist hins vegar ná hærra í dag miðað við Facebook-síðu Stefáns Boga. Myndin sem Oliver notaði í gærkvöldi kemur úr einum stærsta myndabanka heims og er ekki merkt frekar en um að um sé að ræða karlmann í íslenskri ullarpeysu.
Á síðu sinni upplýsir Stefán Bogi um að peysan sé prjónuð af móður hans og telur Stefán Bogi að með þessari myndbirtingu hafi verið bætt fyrir álitshnekkinn sem varð þegar iðnaðarráðherra afhenti borgarstjóra Chicago alltof stóra íslenska peysu framleidda í Kína í síðasta mánuði.