„Mamma vill ekki spaghettí í jólamatinn“

Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara að hlakka til. Það skein gleði og eftirvænting úr hverju andliti á elstu deild Leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði en nemendur þar ganga undir nafninu „öðlingar“. Við fengum að trufla þau aðeins við hefðbundið starf og þau Sandra Dögg Kjartansdóttir og Leifur Gunnarsson voru fús til þess að svara nokkrum spurningum um jólin og jólaundirbúninginn. Bæði eru þau fimm ára gömul.



Jólasveinarnir eru flestir komnir til byggða og hafa fært litlu vinunum fallegar gjafir. En hvernig halda þau að hann komist að skónum þeirra þegar glugginn er lokaður og útidyrnar harðlæstar?



Sandra: „Þeir reyna bara að opna gluggann og setja dót inn í.“

Leifur: „Eða renna sér um arininn. Ég á svoleiðis heima hjá mér. Stefán Þór hljóp á arinn og það þurfti að sauma hann.“

Sandra: „Ég hef alltaf læstar dyrnar mínar og ég skil þetta bara alls ekki.“

En hvar skyldu jólasveinarnir, Grýla og Leppalúði eiga heima?

Sandra: „Í Grýluhelli?“

En hvar er Grýluhellir?

Sandra: „Í fjöllunum.“

Leifur: „Í Hádegisfjallinu, ég er viss um það.“

Hvað er í matinn hjá ykkur um jólin?

Sandra: „Við borðum rjúpur.“

Leifur: „Við borðum hangikjöt .“

Hvað væri í matinn ef þið mættuð velja jólamatinn?

Leifur: „Pizza eða hamborgari.“

Sandra: „Hamborgari, pizza og lasagne. Líka spaghettí. Mamma vill ekki spaghettí í jólamatinn. Líka hrísgrjón, kjöt og græn sósa – kjöt og karrý, það er gómsætur maturinn hjá ömmu Dögg.“



Hver eldar jólamatinn heima hjá ykkur?

Sandra: Mamma.

Leifur: Mamma.

Hvað gerir pabbi á meðan?

Leifur: „Hann liggur fyrir framan sjónvarpið?“

Sandra: „Minn pabbi hjálpar mömmu að leggja á borð.“

Leifur: „Ég legg alltaf einn á borð. Jóladiskana.“



Af hverju erum við að halda jól?

Leifur: „Til þess að það verði eitthvað gaman.“

Sandra: „Svo að allir skemmti sér.“

Var það eitthvað út af Jesúbarninu?

Leifur: „Nei.“

Sandra: „Ég bara veit það ekki. En ég held það kannski.“



Hvað er best við jólin?

Sandra: „Að opna pakkana og hitta litlu frænku mína og Freyju mömmu hennar og Tóta pabba litlu frænku minnar. En Tóti, hann borðar svo ótrúlega mikið af rjúpum.“

Leifur: „Að opna pakka og fá í skóinn.“

Hvað langar ykkur að fá í jólagjöf?

Leifur: „Ég veit um tvær gjafir sem ég fæ. Sleða og íþróttabúning, ég skrifaði það á óskalistann minn.“

Sandra: „Margar dúkkur, ég elska dúkkur.“

 

Hvað heldur þú að mamma vilji í jólagjöf?

Sandra: „Nýja skyrtu.“

Leifur: „Nýjan pott.“

Sandra: „Ég held að pabbi vilji fullt af mat. Eða, ég vil gefa honum fullt af mat, mig langar að hann stækki meira.“

Leifur: „Ég myndi kaupa sleða fyrir pabba. Þá gætum við farið saman á sleðana.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.