![](/images/stories/news/2017/mannamot/mannamot_2017_0023_web.jpg)
Mannamót: Sameiginleg ásýnd Austfirðinga fékk mikla athygli - Myndir
Samræmt útlit sýningarbása austfirskra ferðaþjónustuaðila á ferðasýningunni Mannamót í gær vakti þar mikla athygli. Framkvæmdastjóri Austurbúar segir Austfirðinga geta verið ánægða með frammistöðu sína á sýningunni.
„Mér heyrist ferðaþjónustuaðilarnir almennt vera ánægðir með viðtökurnar og að þeir hlakki til að vera hér aftur að ári,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar að lokinni sýningunni í gær.
Sýningin er haldin á vegum markaðsstofa landshlutanna og hafði Austurbrú því yfirumsjón með austfirsku aðilunum. Vanalega hefur hver og einn séð um sinn bás en stofnunin hafði veg og vanda að því að samræma útlit austfirsku básana.
Það vakti athygli og mátti heyra sýningargesti og aðra sýnendur af öllu landinu tala um glæsilegt útlit austfirska svæðisins. „Þetta hefur verið góður athygli og við fengið töluverða athygli fyrir þessa samræmdu ásýnd,“ sagði Jóna Árný.
Var þetta meðal annars gert til að tryggja að þeir sem væru að fara á sína fyrstu sýningu féllu betur inn í hópinn og yrðu öruggari með sig. „Við vorum bæði með aðila með mikla reynslu og litla en það er mikilvægt að þeir komi allir að því að kynna landshlutann.“
Alls tóku 210 fyrirtæki þátt í sýningunni, í flugskýli Ernis í Reykjavík, þar af 17 austfirsk. „Við megum vera nokkuð ánægð með okkar hóp.“
Jóna Árný segir sýninguna ekki endilega skila samningum á staðnum. Hún nýtist hins vegar til að viðhalda samböndum eða byggja upp ný. Eftirfylgni og viðskipti taki frekar við að lokinni sýningu.
„Þessi sýning svarar ákveðinni þörf sem ekki er fullnægt á öðrum sýningum á Íslandi. Við fáum þau viðbrögð frá ferðaheildsölum í Reykjavík að hér geti þeir komið og hitt á þá sem þeir eru í mestum samskiptum við í landshlutanum.“