Markmiðið að skapa rómantíska mynd af Breiðdalsvík
Friðrik Árnason hefur heldur betur lagt sitt af mörkum við uppbyggingu ferðamennsku á Breiðdalsvík undanfarin ár, en hann hefur byggt upp verkefnið The tiny town of Breiðdalsvík.
Friðrik byrjaði ungur að starfa við ferðaþjónustu og rak sitt eigið farfuglaheimili og hótel um tíma. Hann segir að hóteláhuginn hafi kviknað aftur þegar hann kom heim úr námi frá Danmörku.
„Ég sá Hótel Bláfell til sölu í Morgunblaðinu, sem ég reyndar hafði áður séð auglýst og var því búinn að hugsa málið í dágóðan tíma. Ég ákvað að keyra austur, heiman frá mér úr Njarðvíkunum og lagaði af stað klukkan sex að morgni 7. janúar 2009. Það var aðallega gert til þess að koma þeirri fáránlegu hugmynd að kaupa hótel á Breiðdalsvík út úr hausnum á mér. Ég varð bara að fara þarna til þess að hreinsa hugann og segja sjálfum mér að ég ætlaði ekki að kaupa þetta, en það vildi ekki betur til en að ég keypti hótelið daginn eftir,“ segir Friðrik.
Friðrik rekur ekki aðeins Hótel Bláfell heldur hefur fjárfest í mörgum eignum á staðnum. Hann keypti gamla kaupfélagshúsið þar sem hann rekur nú verslun og kaffihús, kaffihús uppi í hlíðinni sem áður hét Kaffi Margrét en núna Aurora Lodge, gamla frystihúsið þar sem hann útbjó veislusal, íbúðir sem leigðar eru til ferðamanna og eikarbát sem notaður er í lundaskoðun og sjóstangveiði.
„Þetta ákvað ég að setja allt undir sama hatt undir vörumerkinu The tiny town of Breiðdalsvík og erum með því að búa til rómantíska mynd af þessu lita þorpi sem Breiðdalsvík er.“
Friðrik lítur björtum augum á ferðamannasumarið framundan og lífið á Breiðdalsvík almennt sem hann telur vera á uppleið eftir erfiða tíma.
„Sumarið er fullbókað en enn vantar meira streymi yfir vetrartímann sem er þó alltaf að þéttast, við náum að hafa opið allt árið og halda fólki í vinnu. Með auknum ferðamannastraumi sköpum við aukna atvinnu, hjá okkur eru átta manns í vinnu á árs grundvelli en fyrir þremur árum enginn. Það skiptir miku máli í ekki stærra samfélagi en þetta.“