ME úr leik eftir tap gegn Verzló
Menntaskólinn á Egilsstöðum féll í gærkvöldi úr leik í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, eftir 18-8 tap gegn Verzlunarskóla Íslands.
ME gekk ágætlega framan af þar sem staðan var 7-11 eftir hraðaspurningarnar. Athygli vakti að spyrill sagði þar tvisvar rétt þegar Verzlingar svöruðu rangt en dómarar voru á varðbergi og sáu til þess að Verzlunarskólinn fékk ekki stigin.
Þegar komið var fram í bjölluspurningarnar fór Verzlunarskólaliðið í gang og svaraði hverri spurningunni á fætur annarri. Vel þjálfað liðið sló á bjölluna nánast um leið og spurningin hafði verið borin upp og gaf ME lítil færi á að komast inn í keppnina.
Niðurstaðan varð að ME fékk aðeins eitt stig í bjölluspurningunum og kemst því ekki í sjónvarpskeppnina í ár. Lið skólans skipuðu að þessu sinni Valgeir Eyþórsson og Kolbrún Sverrisdóttir, Egilsstöðum og Alexander Jónsson, Reyðarfirði. Þjálfarar voru Hrólfur Eyjólfsson og Vilhjálmur Pálmi Snædal.