„Mér fannst ég komin í einhverjar fullorðins-aðstæður“

„Þetta er frábær reynsla sem ég vildi ekki vera án, algert túrbónámskeið,“ segir Agnes Ársælsdóttir, útskriftarnemi í myndlistardeild Listaháskóla Íslands, en sýningin Allar leiðir slæmar opnar í Skaftfelli á morgun, laugardag.


Sýningin er afrakstur námskeiðsins Vinnustofan Seyðisfjörður sem útskriftarnemar við Listaháskóla Íslands, myndlistardeild, sækja um þessar mundir.

Síðan 2001 hefur árlega verið haldið tveggja vikna námskeið, Vinnustofan Seyðisfjörður, á vegum Dieter Roth Akademíunar fyrir útskriftarnema úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur kynnist aðferðafræði svissneska listamannsins Dieter Roth og geti nýtt sé þær sérstæðu aðstæður sem Seyðisfjörður býður upp á. Skaftfell er aðalbækistöð nemenda á meðan á námskeiðinu stendur, þar sem unnið er að þróunarvinnu og listsköpun. Námskeiðinu er stýrt af Birni Roth og Kristjáni Steingrími Jónssyni.

Mikil innivera einkenndi ferlið
Nemendur komu í fallegu veðri en áður en langt um leið skall óveður á. Allar leiðir út úr firðinum voru lokaðar. Sum þeirra neyddust til að leita á náðir bæjarbúa sem af góðmennsku sinni lánuðu þeim betri föt.

Agnes segir dvölina hafa verið áhugaverða og lærdómsríka. „Fyrstu dagana var alveg brjálað veður og var það mikil innivera sem einkenndi byrjun vinnuferlisins. Ég verð að viðurkenna að mér leið hálf hjálparlausri meðan versta veðrið var, mér fannst ég svo vel undirbúin en upplifði svo hversu háður maður er veðrinu. Mér fannst ég komin í einhverjar fullorðins-aðstæður,“ segir Agnes og hlær.

Verk Agnesar er ofin mynd. „Ég gerði verk úr gömlum köðlum sem ég fann á vinnustofunni og óf úr þeim mynd af þeim stól sem ég sat í meðan ég óf. Verkið mitt fjallar því um að vera föst inni og láta nærumhverfið og veðrið hafa áhrif – en nemendur eru vanir að komast í Egilsstaði til þess að viða að sér efni, en núna var allt lokað og þurftum við því að notast við það sem var fyrir hendi.“

Agnes er ánægð með viðtökurnar sem hópurinn hefur fengið á Seyðisfirði. „Þetta er búið að vera alveg frábært, en Seyðfirðingar hafa reynst okkur afar vel, allir heilsa okkur og vita hvað við erum að gera. Það er líka gott að fá að fara í þennan tíma og vinna bara að sínum verkefnum og allir í hópnum hafa verið mjög vinnusamir og lagt sig 100% fram.“

Sýningin stendur til 8. apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.