„Mig langaði ekki að lifa“
„Þunglyndi er djöfull sem sumir draga, sem dregur mann niður í svarthol depurðar og vanlíðunar. Margir trúa því að það sé ekki hægt að lækna þetta, en ég persónulega held að með hjálp vina og sérfræðinga sé það hægt, allt er hægt,“ sagði Sævar Örn Þorsteinsson, 17 ára nemandi við Verkmenntaskóla Austurlands á málþingi um geðheilbrigðismál sem haldið var á Reyðarfirði um síðustu helgi.
Sævar Örn er greindur með þunglyndi og deildi reynslu sinni af því sem og að benda á leiðir til bata.
„Ég vil segja ykkur frá stríði mínu við þunglyndi og hvernig ég tapaði. Deila með ykkur minni reynslu og hvað það er sem þið getið gert.
Í fyrsta lagi skulum við velta því fyrir okkur hvað þunglyndi er? Það er sjúkdómur, en maður vaknar ekki einn daginn og hugsar; ég er að hugsa um að vera með þunglyndi í dag. Ef svo væri, þá væri þunglyndi ekki til, því þeir sem myndu prófa það myndu ekki vilja fá það aftur.“
Sá bara eymdina
Sævar Örn velti því upp hvað þunglyndið hefði gert sér. „Í stuttu máli eyðilagði það líf mitt. Sjálfsmyndin mín fór í rúst og ég tapaði mörgum vinum. Ég lokaði mig af fyrir framan tölvuskjá og sagði að allt væri í góðu, en það var ekki þannig.
Ég var tilfinningadauður, en í dag óska ég þess eins að geta elskað. Ég vildi ekki lifa, ég sá ekki tilganginn. Ég vaknaði og spurði mig; hví er ég lifandi, ég á það ekki skilið. Ég hataði sjálfan mig, ég sá ekki það góða við mig. Ég leit í spegil og sagði; Þú ert ljótur. Þú ert feitur. Þú ert misheppnaður. Það elskar þig enginn. Sannleikurinn var sá að ég hafði svo marga á bak við mig sem trúðu á mig og vildu mér allt það besta. Ég sá það ekki, bara eymdina.“
Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann
Sævar Örn gaf málþingsgestum góð ráð varðandi hvað hægt er að gera fyrir þunglynda ástvini.
„Sumir myndu segja; senda þá á geðdeild. Ég skal viðurkenna að það er ekkert slæmt. En, að senda þau til sérfræðings er eitt. Að láta þau taka lyf er eitt. En það fyrsta sem hægt er að gera er að láta fólk vita að það sé með vandamál, ekki láta eins og það sé ekki neitt.
Ég lærði fyrir stuttu, að eina leiðin til að laga vandann er að sjá viðurkenna hann sjálfur og vita að hægt sé að laga hann. Maður fer ekki til læknis með brotinn handlegg og segir; það er ekkert að. Nei, þú þarft að sætta þig við að það sé eitthvað að og vita að það sé hægt að laga það.
Líka að tala. Af minni reynslu er bara mjög þægilegt að tala, setjast niður og segja allt saman. Eða setjast niður og segja ekki neitt, bara vita að það sé einhver þarna sem styður þig.
Ef það tekst ekki þarf að senda fólk til sérfræðings eða inn á geðdeild. Ekki halda að það sé slæmt, ég hef sjálfur verið á BUGL. Þegar ég fór hélt ég að þetta væri hræðilegt, að ég yrði lokaður inn með járnrimlum. En, ég spilaði FIFA. Já, ég spilaði FIFA með starfsfólkinu. Setti saman módel og spilaði á gítar. Þegar ég kom út leið mér svo vel. Ég horfði út og sagði, það er fallegur dagur og ég á skilið að vera hérna.
Þeir sem þjást af þundlyndi geta leitað til námsráðgjafa, umsjónarkennara, ættingja og vina eða sálfræðings. Allir þessir einstaklingar geta aðstoðað ykkur. Líka Rauði krossinn, neyðarlínunan og Landspítalann.“