Orkumálinn 2024

Mikið spurt um hávaxin jólatré

Ekki verður hægt að halda jólamarkaðinn Jólaköttinn með hefðbundnu sniði í ár vegna samkomutakmarkana. Skógarbændur verða hins vegar með jólatrjáasölu á Egilsstöðum næstu tvo laugardaga. Ásókn virðist í stór jólatré þetta árið.

„Við ákváðum bara að láta Jólaköttinn rumska því við getum ekki verið neinn markað. Hann er eiginlega hálfgerður jólakettlingur,“ segir Helgi Bragason, skógarbóndi á Setbergi í Fellum og einn skipuleggjandi jólatrjásölunnar í ár.

Helgi er einn sex skógarbænda sem munu selja tré sín á markaðinum í ár auk Skógræktarinnar á Hallormsstað en jólamarkaður Jólakattarins hefur verið samstarfsverkefni hennar og Félags skógarbænda á Austurlandi.

Þegar mest lét var markaðurinn á 1800 fermetra svæði í gróðurhúsi Barra en hefur síðustu ár verið á um 1000 fermetra svæði eftir að starfsemi Barra var hætt. Að þessu sinni verður markaðurinn frá klukkan 13-18 næstu tvo laugardaga í Samfélagssmiðjunni, fyrrum Blómabæ eða Fóðurblöndunni, á Egilsstöðum.

Takmarkanir á fjölda

Hundruð gesta hafa sótt markaðinn síðustu ár en að þessu sinni mega aðeins vera tíu manns vera inni í húsinu í einu. Helgi segir skipuleggjendur vera leggja lokahönd á skipulagið en að jafnaði verið 2-3 inni í húsinu að selja sem þýði að aðeins verði pláss fyrir 2-3 fjölskyldur inni að velja jólatré.

Salan verði því nokkur áskorun því fjölskyldan komi gjarnan saman til að velja tré. Þess vegna sé gott ef hægt er að skipta verkum, einkum ef mikil aðsókn verður á markaðinum. Þá er til skoðunar að pakka trjánum utanhúss sem myndi stytta þann tíma sem fólk væri inni í húsinu.

Hverjum þykir sitt tré fagurt

En salan er ekki bara áskorun út af samkomutakmörkunum heldur er smekkur fólk sá jólatrjám afar mismunandi. „Það er mikið búið að spyrja um jólatré í ár. Þær fyrirspurnir sem ég hef fengið eru um stór tré, um og yfir tvo metra. Það verður minna um jólaboð í ár þannig fólk verður meira heimavið og reynir að gera heimilið glæsilegt með flottu jólatré.

Við reynum að hafa nokkra fjölbreytni í trjánum, frá einum metra og upp í 2,5. Annars er þetta ótrúlegt við að eiga. Sum ár seljast bara litlu trén og þegar maður mætir með þau árið eftir þá seljast bara þau stóru.

Mín reynsla, sem ég hef heyrt fleiri tala um líka, er að þegar maður fer út í skóg með fjölskyldum til að velja tré þá taka þær oft tré sem við myndum aldrei fella til að selja á markaði. Það er einhver tilfinning sem fólk fær gagnvart trjánum.“

Mikilvægast að skapa jólastemminguna

Í samræmi við þetta hefur ágóði skógarbændanna verið misjafn af sölunni í gegnum árin. Það er því ekki bara hann sem hefur hvatt skógarbændur til dáða við að halda markaðinn.

„Það hefur verið mjög breytilegt hvað menn hafa selt. Sumir hafa selt öll sín tré og þá getað haldið jólin og rúmlega það fyrir ágóðann, meðan aðrir hafa jafnvel bara selt eitt. Markmið Jólakattarins hefur hins vegar alla tíð verið að skapa stemmingu og hún hefur verið meira virði heldur en peningarnir.

Hér hafa verið 70 söluaðilar í viðbót sem koma frá öllu svæðinu frá Hornafirði til Sauðárkróks. Það hefur verið mikil ásókn í að selja á markaðinum og það hefur verið gaman að halda utan um hana.“

En eins og aðrir í þjóðfélaginu vonast skógarbændur til þess að framundan sé frjálsari tíð. „Það sem við gerum nú er viðleitni okkar til að halda markaðinum gangandi með einhverjum hætti og Múlaþing lagði okkur til hlýtt og bjart húsnæði. Við eru hins vegar hvergi nærri hætt með Jólaköttinn og komum sterk inn þegar gefur á ný, sem vonandi verður að ári,“ segir Helgi að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.