„Mikilvægt að við skilum einhverju til baka“

Nemendur og starfsfólk í Handverks- og hússtjórnarskólanum á Hallormsstað hlutu nafnbótina „heiðursborgarar Fortitude“ í febrúar.



Guðjón Sigmundsson, innkaupastjóri Pegasus, segir að nemendur og kennarar Handverks- og hússtjórnarskólans hafi veitt ómetanlega hjálp við gerð einnar leikmyndar þáttanna.

„Samband okkur við skólann atvikaðist þannig að við vorum að útbúa Freyjuhús, sem er hluti af setti hér í Fortitude – heimili og vinnustofa konu á sextugsaldri sem er vefari, hippi og hálfgerð óreiðumanneskja.

Við gerð leikmyndarinnar settum við upp vefstól og fengum lánað allskonar tilheyrandi dót, bæði frá Önnu Ólafsdóttur hannyrðakonu á Fáskrúðsfirði og Steinunni Björgu Helgadóttur vefara á Djúpavogi. Vandamálið fólst hins vegar í því að við þurftum að fá einhvern til þess að setja upp fyrir okkur í stól, en Björg komst ekki því því var afráðið að hafa samband við skólann á Hallormsstað,“ segir Guðjón.

Starfsmenn leikmyndadeildarinnar byrjðuðu á því að heimsækja skólann og nemendur hans og kennarar komu svo í heilsdags vettvangsferð í Fortitude í kjölfarið.

„Það voru tveir kennarar og nokkrir nemendur sem komu að því að setja upp í stólinn. Ég fór svo með hópinn og sýndi þeim nokkur sett, skoðuðum stríðsminjasafni, borðuðum saman og áttum skemmtilegan dag. Mér finnst mikilvægt að við skilum einhverju til baka, en við komum og ryðjumst inn í samfélagið án þess að nokkur viti hvernig þetta gengur fyrir sig. Nemendurnir höfðu mjög gaman af því að fá að skyggnast á bak við og fylgjast með hvernig við stöndum að þessu öllu saman, Freyjuhúsið er dæmi um mjög skemmtilegt leikmyndasett.“

Dagurinn endaði á því að hópnum var veitt viðurkenningarskjal sem heiðursborgarar Fortitude. „Það eru nokkrir hér á Reyðarfirði og nágrenni sem hafa hlotið slík skjöl, þeir sem hafa hjálpað okkur sérstaklega mikið gegnum tíðina. Það þykir mikill heiður og er undirritað af leikkonunni sem leikur bæjarstjórann í þáttunum,“ segir Guðjón að lokum.

husmaedraskolinn i fortitude1

husmaedraskolinn i fortitude2

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.