Minjavernd og Virðing taka höndum saman um endurgerð Franska spítalans

franskispitalihafnarnes_minjavernd_web.jpgVirðing hf. hefur í samstarfi við fjárfesta lokið langtímafjármögnun vegna umfangsmesta verkefnis sem Minjavernd hefur ráðist í utan höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið felst í endurbyggingu sögufrægra húsa á Fáskrúðsfirði, sem staðsett verða í þyrpingu við sjóinn. Verður Franski spítalinn frá 1903 þar í öndvegi, en húsið var að hruni komið enda verið í niðurníðslu í nær hálfa öld.

 

Minjavernd hf. hefur að meginmarkmiði að endurbyggja og varðveita gömul og sögufræg hús um allt land. Verkefnið á Fáskrúðsfirði er hið umfangsmesta, sem félagið hefur ráðist í til þessa, en ætlunin er að endurbyggja helstu húsin sem tengdust veru og þjónustu við franska fiskimenn á Fáskrúðsfirði.

Búið er að taka niður hús spítalans á Hafnarnesi, þar sem það hefur staðið frá árinu 1939, og flytja til Fáskrúðsfjarðar. Þar verður húsið endurbyggt frá grunni og hefur mikil vinna þagar farið fram í vetur, svo sem við að hreinsa upp allan panel. Spítalinn verður staðsettur fyrir neðan Læknishúsið og verður innangengt milli húsanna. Gert er ráð fyrir að gamla kapellan, sjúkraskýlið og líkhús spítalans, sem byggð voru á árunum frá 1896 til1904, verði hluti húsaþyrpingarinnar auk þess sem ætlunin er að smíða bryggju fyrir neðan húsin.

Húsaþyrpingin á að nýtast ferðaþjónustunni eystra og því er m.a. ætlunin að opna safn um sjósókn Frakka við Ísland, hótel og aðra starfsemi, þannig að svæðið í heild geti tengst þeirri stórmerkilegu sögu sem þarna liggur að baki og lítil skil hefur verið gerð. Gert er ráð fyrir að rekstur hefjist vorið 2014. Kostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um 580 milljónir króna.

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var reistur árið 1903 og tekinn í notkun árið 1904. Hann var einn þriggja spítala sem byggðir voru á Íslandi af franska ríkinu til að þjóna fjölda franskra fiskimanna sem stunduðu veiðar við landið. Húsið sjálft er merkilegt og ekki síður sú saga sem því tengist. Húsið var tekið niður og flutt út á Hafnarnes 1939. Þá var veiðum franskra fiskiskipta lokið á Íslandsmiðum. Húsið var þar notað sem íbúðarhús og skóli. Þegar mest var bjuggu milli 50 og 60 manns í húsinu og var búið í því fram um 1964. Síðan hefur það staðið autt, ekkert viðhald fengið í nær hálfa öld.

Minjavernd hf. er hlutafélag í eigu ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Minja, sjálfseignarstofnunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.