„Mitt bataferli er í gegnum leiklist“
„Trúið mér, það er alltaf einhver í kringum ykkur sem getur stutt við bakið á ykkur og komið ykkur í gegnum þetta, ég vil þakka foreldrum mínum fyrir að hafa komið mér svona langt,“ sagir Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir, nemandi í Menntaskólanum á Egilsstöðum, á málþingi um geðheilbrigðismál á Austurlandi sem haldið var á Reyðarfirði síðastliðna helgi.
„Fyrir sex mánuðum hefði ég komið upp og sagt; Hæ, ég er Sigurbjörg Lovísa, átján ára nemi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og ég er þunglynd og kvíðin. En í dag ætla ég ekki að gera það því ég kýs að láta kvíðann og þunglyndið ekki skilgreina mig, ekki lengur,“ sagði Sigurbjörg Lovísa.
Sigurbjörg Lovísa segist hafa skipt um bekk í miðri grunnskólagöngu sinni og útskrifast þaðan með góðar einkunnir. Hún fór í Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem hún kláraði fyrsta árið, var í Leikfélagi ME og á kafi í öðru félagslífi.
„Svo kom sumarið og ég ákvað að Menntaskólinn á Egilsstöðum væri ekki nógu stór fyrir mig, ég þyrfti eitthvað meira. Af einhverjum ástæðum sótti ég um dýrasta skóla landsins, Verslunarskóla Íslands og komst þar inn, hálfum haldlegg fátækari. Ég var búin að vera þar í fjórar vikur þegar ég fann að eitthvað var að draga mig heim. Þrátt fyrir að vakna í sól og björtu veðri á hverjum degi var alltaf rigningarský yfir mér. Á sjöttu viku í skólanum fór ég til námsráðgjafa og sagði að þetta væri bara allt of dýrt nám, hvort ég gæti fengið endurgreitt. Það fékk ég ekki, en fór engu að síður aftur heim.“
Sigurbjörg Lovísa mætti aftur í sinn gamla skóla, íklædd peysu Verslunarskólans. „Ég var búin að vera fjórar vikur í skólanum þegar mætingin mín fór að dala. Ég var farin að leita til sálfræðings en eftir áramót var ég alveg hætt að mæta. Ég fór hins vegar alltaf á leiklistaæfingar og við settum upp flott leikrit. Þegar það var búið hugsaði ég með mér að nú þyrfti ég að gera eitthvað annað, sóttu um sem Aupair og fór til Spánar.
Þangað flaug ég og hitti fjölslyldu sem ég ákvað að ég vildi ekki vera hjá, en mér leið svo illa og kenndi þeim um þá vanlíðan. Þaðan fór ég til annarrar fjölskyldu þar sem ég passaði tvær yndislegar stelpur. Á kvöldin skypaði ég heim og grét. Ég grét mig í svefn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Eftir einhvern tíma ákvað ég að þetta væri bara að klárast, það væri bara fínt að deyja út á Spáni. En, ég komst heim og það fyrsta sem var látin gera var að fara í einn tíma á Kvíðameðferðarstöðina í Reykjavík. Fór svo heim og byrjaði aftur í skólanum en mætti illa og gekk ekki vel.“
Grét alla nýársnóttina
Sigurbjörg sagði að fram til þessa hafi hún þó alltaf geta sagt; Jæja, það koma samt alltaf jól, sama hversu dagurinn er erfiður.
„Og það komu jól. Og áramót. Ég vaknaði klukkan fjögur á gamlársdag og ég sagði við mömmu; Æji, ég ætla að sofa aðeins lengur, sem ég gerði. Klukkan varð sjö, maturinn að verða til, allir orðnir fínir en ég í náttfötunum upp í rúmi. Ég sagði; Æji, ég ætla bara að vera upp í rúmi, það er ekkert fyrir mig til að fagna, þetta er bara enn eitt árið sem að ég þarf að lifa.
Foreldrar mínir styðja mig alltaf og ég fékk að liggja áfram. Fékk mér nokkra kjötbita og beið eftir nýju ári. Það kom, flugeldarnir byrjuðu og ég held að það megi segja að engin flugeldasýning á íslandi hafi jafnast á við þá sem var inn í hausnum á mér á þessum tíma. Ég grét og grét. Ég grét til þrjú um nóttina, allir voru út að skemmta sér en ég grét bara heima.
Hver og einn verður að finna sína leið
Fyrir foreldra að upplifa þetta er ótrúlega erfitt. Þau hringdu í lækni á nýársdag, sem taldi lítið hægt að gera fyrir mig á Austurlandi og því var ég send suður 2. janúar á þessu ári. Ég fór á bráðadeild geðdeildar og talaði við geðhjúkrunarfræðing og læknanema. Þær voru afar almennilegar en það eina sem þær gerðu var að gefa mér helling af lyfjum sem þær stilltu af. Ég var svo send aftur heim,“ segir Sigurbjörg Lovísa.
Sigurbjörg Lovísa segir að þetta hafi verið síðasta skiptið sem hún fór til sérfræðinga á þessu sviði.
„Þegar ég kom aftur heim var að hefjast uppsetningin á enn einu leikritinu sem ég fékk að vera með í. Ég myndi segja að mitt bataferli sé í gegnum leiklistina. Við höfum öll mismunandi leiðir til þess að takast á við hlutina og mín leið er í gegnum leiklist. Auðvitað hef ég farið til námsráðgjafa, félagsráðgjafa og sálfræðinga. Þeir eru til staðar hér fyrir austan, en það má alltaf gera betur. Ég myndi vilja sjá fjölbreyttari leiðir. Aðalatriðið er að finna sína leið og halda sig við hana sama hversu erfitt það er.“