![](/images/stories/news/2016/mottumars2016_alcoa.jpg)
Mottumars: „Við munum vinna þetta núna – það er alveg á hreinu“
Óðinn Ólafsson, starfsmaður Alcoa Fjarðaáls, hefur undanfarin ár haldið utan um liðakeppni Alcoa Fjarðaáls í Mottumars og verið duglegur að hvetja samstarfsfélaga sína að safna myndarlegri mottu í þágu góðs málefnis.
Mottumars er tákn Krabbameinsfélags Íslands í baráttunni gegn krabbameini hjá karlmönnum. Árlega greinast um 750 karlmenn með krabbamein á Íslandi – synir, bræður, pabbar, afar, vinir, makar og allir hinir.
Krabbamein á ekki að vera feimnismál. Mottan er táknræn, hún minnir okkur á að ræða þessi mál og um leið að fá menn til að hugsa um heilsuna. Því er um að gera að safna í góða og hraustlega mottu, heita á menn og málefni og sýna samstöðu.
„Þetta er í sjöunda og síðasta skipti sem keppnin er haldin. Við erum komin með lið en það mætti vera mun fjölmennara,“ sagði Óðinn í samtali við Austurfrétt.
Óðinn hefur verið maðurinn bak við lið Fjarðaáls síðastliðin sex ár. Aðspurður hvers vegna hann hafi staðiðí þessu öll þessi ár segir hann;
„Mér finnst málefnið gott og nauðsynlegt að vekja einnig karlmenn til hugsunar um hve mikilvægt reglulegt eftirlit er. Þessi leið sem Krabbameinsfélagið hefur farið er alger snilld – að við fáum tækifæri til þess að safna myndarlegum mottum, sem vissulega eru misfallegar, til þess að vekja máls á þessu, safna fé fyrir félagið og síðast en ekki síst til að geta verið eins og gömlu tískufyrirmyndirnar.“
Konurnar eiga að styðja ekki letja
Lið Fjarðaáls hefur alltaf verið í toppbaráttunni á landsvísu, en það hefur ýmist lent í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Fyrirtækið hefur einnig stutt dyggilega við liðið með myndarlegu fjárframlagi.
„Betri helmingarnir hafa ekki verið nógu hrifnir af þessu og ég heyri oft „konan segir og konan ræður“. Eiginkonur þessa lands verða bara að leggja þessa fordóma til hliðar þennan mánuð og styðja frekar við bakið á sínum mönnum og horfa á heildarmyndina, því eins og máltækið segir; margt smátt gerir eitt stórt.
Ég vil hér með hvetja alla vinnufélaga mína til þess að skrá sig til leiks því við munum vinna þetta núna, í síðasta skipti sem keppnin er haldin, það er alveg á hreinu!“
Ljósmynd - frá vinstri: Óðinn Ólafsson, Guðmundur Páll Pálsson og Júlíus Brynjarsson.