Múli Craft Brew kynnir bjór með kóríander og mandarínu

Brugghúsið Múli Craft Brew stendur fyrir útgáfuhátíð á Egilsstöðum um helgina á nýjum bjór sínum. Sá heitir Hvítur-Belgian wit og í honum er m.a. kryddið kóríander og mandarínur.

Bjarni Þór Haraldsson einn af eigendum Múla segir að einnig verði boðið upp á bjórinn Eystrahorn frá þeim á þessari hátíð en það er fyrsti bjórinn sem brugghúsið kom með á markað.

„Eystrahorn er mjög vinsæll bjór á Höfn í Hornafirði. Raunar svo vinsæll að við höfum ekki náð að selja hann annarsstaðar,“ segir Bjarni Þór. „Eystrahorn er húsbjórinn hjá Pakkhúsinu á Höfn og hann selst svo grimmt þar að öll framleiðslan fer á staðinn.“

Á meðan Eystrahorn er klassískur bjór ef svo má að orði komast er Hvítur aðeins meira framandi.

Aðspurður um að blanda kóríander og mandarínum í bjórinn segir Bjarni Þór að hann sé áhugamaður um austurlenska og indverska matarlist og þaðan hafi hann fengið þá hugmynd að nota kóríanderfræ við bruggunina.

„Og hvað mandrínurnar varðar þá eru jú jólin ekki svo langt undan,“ segir Bjarni Þór.

Hátíðin verður bæði á Níunni að Miðvangi 1 frá kl. 15.00 til 17.00 þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að smakka bjórana. Einnig verður Hvítur til sölu í Tehúsinu á Happy hour milli kl. 15.00 og 19.00 á laugardag. Þar verður raunar einnig grímuball um kvöldið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.