„Muse brúar kynslóðabilið“

„Við erum bara ótrúlega heppin með að börnin hlusti á sömu tónlist og við, eða þá að við hlustum á sömu tónlist og þau,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri á Reyðarfirði, en hún fór ásamt manninum sínum og öllum börnum þeirra á tónleikana með stórhljómsveitinni Muse í Reykjavík síðastliðna helgi.


Þau Lísa Lotta, maðurinn hennar Glúmur og börnin Hjörtur Elí (21), Martu Lovísa (14) og Sebastían Andra (11) skemmtu sér konunglega öll á tónleikunum.

„Við ætluðum alltaf bara að fara með yngsta strákinn því hann er forfallin aðdáandi, en svo langaði bara alla að fara með.

Sá elsti þekkir þá vel þar sem ég hef hlustað á þá síðan þeir hófu ferilinn en sá yngsti er líklega heitastur og dýpstur í sínum áhuga, kann öll lögin, þekkir allar plöturnar og er alger grúskari. Stelpan er svo alveg heilluð eftir tónleikana.“

Lísa Lotta segir mikið umburðarlyndi ríkja í allar áttir varðandi tónlist innan veggja heimilisins. „Það er allt í gangi heima, ekki bara ein ákveðin tónlistarstefna. Við höfum umburðarlyndi gagnvart One direction og Hipphoppi, og krakkarnir gagnvart rokkinu við hlustum á og klassíkinni sem ég dett stundum ofan í – þannig að samsuðan er mjög fjölbreytt. En, Muse er tónlist sem við getum öll lagst á, poppskotið rokk sem heillar.“

Breitt aldursbil tónleikagesta kom á óvart

Lísa Lotta segir að það hafi komið þeim á óvart hve aldursbil tónleikagesta var breitt. „Við bjuggumst við að flestir væru á aldrinum 30-40 ára, en þarna var fólk alveg upp í sjötugt og niður í fjögurra ára sem sátu á háhest á foreldrum sínum.

Þetta var gæsahúð út í gegn og ég sagði við krakkana þegar við vorum að keyra heim að þau gerðu sér enga grein fyrir því hve dýrmæt minning þetta yrði fyrir mig, að við hefðum farið öll saman á þennan viðburð. Muse brúar kynslóðabilið, þarna er band sem við öll þekkjum og höldum upp á, getum talað um og öll finnum við eitthvað í textunum sem við tengjum við.“

Farin að skipuleggja næstu ferð

Aðspurð að hápunkti kvöldsins segir Lísa Lotta; „Fyrir mig var það þegar þeir tóku þessi stóru, gömlu og góðu lög sem maður þekkir best. Sá litli talaði um þegar stóru blöðruboltarnir fóru að skoppa um salinn og sá stóri um hve þetta hefði verið mikið sjóv. Setning kvöldsins var svo auðvitað þegar að söngvari sveitarinnar, Matt Bellamy, sagði „Hvað er að frétta Reykjavík“ og hóf víkingaklappið í framhaldi, það sló alveg í gegn.

Við erum strax farin að skipuleggja næstu ferð, langar að fara á tónleika erlendis – værum alveg til í að fara aftur á Muse í góðum sal þar sem við gætum hallað okkur aftur í sætunum og notið, en Coldplay er band sem einnig er á óskalistanum.“

Sebastían Andri

 

Alveg gleymdist að taka mynd á tónleikunum sjálfum, en fjölskyldan fjárfesti í bolum á alla. Þegar forsíðumyndin var tekin var Sebastían Andri ekki heima, en hér er hann í góðu stuði á tónleikakvöldinu sjálfu. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.