Myndar öll hús samvinnuhreyfingarinnar

Reynir Ingibjartsson var á ferðinni um Austurland nýverið og er væntanlegur aftur síðar í sumar til að mynda allar byggingar sem tengjast sögu samvinnuhreyfingarinnar á svæðinu. Hann segir það mikilvægt til að varðveita söguna og stefnir á að gefa myndasafnið út á bók.


„Tilgangurinn er að láta þessa sögu ekki gleymast og týnast. Þetta voru fyrirtæki sem mótuðu atvinnulífið í landinu alla 20. öldina. Þau eru nú horfin en eftir standa húsin.“

Reynir er ritari áhugamannafélagsins Fífilbrekku sem stendur að verkefninu. Það er sprottið upp úr félagsskap fyrrverandi nemenda Samvinnuskólans á Bifröst en gjaldkeri félagsins er Gísli Jónatansson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri á Fáskrúðsfirði.

Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar að mynda öll húsin eins og þau eru í dag, eða lóðirnar sem þau stóðu á séu þau horfin, og að finna gamlar myndir af þeim. Markmiðið er að koma safninu út á bók eða í annað varanlegt form.

Miðað er við hús frá árunum 1882-1982, frá stofnun fyrsta kaupfélagsins fram að þeim tíma sem verulega tók að halla undan fæti hjá þeim. Myndatökurnar hófust árið 2015 en stefnt er að því að ljúka þeim í ár. Þær eru umfangsmiklar en á lista Reynis eru yfir 1.800 hús um allt land.

Af þeim eru yfir 300 á Austurlandi og fór Reynir meðal annars á Mjóafjörð, Reyðarfjörð, Seyðisfjörð og Borgarfjörð í heimsókn sinni austur. Af stöðum sem hann hefur myndað má nefna Stapavík þar sem Kaupfélag Borgfirðinga var með uppskipun og svæði Launafls á Reyðarfirði sem áður tilheyrði Kaupfélagi Héraðsbúa.


Hann segir hjálp heimamanna mikilvæga. „Sem betur fer eru alls staðar til menn sem þekkja þessa sögu og við leitum þá uppi.“

Reynir ásamt leiðsögumanni sínum á Austurlandi, Birni Ágústssyni, fyrrum fjármálastjóra Kaupfélags Héraðsbúa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.