![](/images/stories/news/umhverfi/seydisfjordur_april2014_0006_web.jpg)
„Myndum sprengja allar markaðsrannóknir ef út í það væri farið“
Nýstofnað Verzlanafjelag Seyðisfjarðar býður alla bæjarbúa og gesti velkomna að taka þátt í opnunar- og afmælisgleði á morgun. Boðið verður upp á glæsileg tilboð, lukkuleiki og léttar veitingar.
Verzlanafjlagið samanstendur af sex glæsilegum lífstíls- og hönnunarbúðum hér á Seyðisfirði. Lilja Kjerúlf er ein þeirra sem stendur að félaginu, en hún er að opna ljósmyndagallerí ásamt manninum sínum Nikolas.
„Þetta hófst allt með því að okkur langaði að opna ljósmyndagallerí og vera með handavinnu til sölu, en við erum að gera upp 100 ára gamalt hús og vildum finna því eitthvað skemmtilegt hlutverk í sumar og koma ljósmyndunum okkar á framfæri í leiðinni. Við verðum með myndirnar okkar, póstkort, segla og ýmsar fallegar prjónavörur frá öðrum,“ segir Lilja.
„Svo eru fleiri búðir að opna í bænum, til dæmis ein sem heitir Our favorite things, sem er opin vinnustofa þar sem þær Sesselja og Diljá og sauma föt en þær eru báðar klæðskerar, auk þess sem þær eru að hanna skart og verða auk þess með aðrar vörur.
Ég ákvað að tala við þær um hvernig við ættum að standa að þessu, hvort við ættum að hafa einhvern opnunardag eða opna sitt á hvorum degi til þess að stela ekki senunni frá hvort öðru. Úr varð einhver brjáluð samkennd og við ákváðum að gera þetta saman og fá enn fleiri með okkur til þess að hafa þetta sem skemmtilegast.
Erna er kona hér í bænum sem opnar húsið sitt í sumar og býður ferðafólki heim til sín þar sem hún er með kaffi og ýmsar vörur til sölu, en hún kallar sig einfaldlega Hjá Ernu.
Svo er það Íris í Borgarhól sem er minjaverslun í gömlu fjósi sem opin er á sumrin með frábærar og fjölbreyttar vörur.
Philippe Clause sem er með búðina Esualc, en hann heklar alveg frábær sjöl og klúta með sinni eigin aðferð, en hann þróaði óvart sitt eigið hekl þegar hann var að læra að hekla og misskildi aðferðina. Hann er með vinnustofu og búð heima hjá sér.
Síðast en ekki síst er það Gullabúið, sem fagnar einmitt þriggja ára afmæli sínu á morgun, en það er alveg dásamleg verslun sem blómstar.
Úr varð að þessar verslanir stofnuðu Verzlanafjélag Seyðisfjarðar og verður mikil opnunar- og afmælishátíð hér á morgun. Bærinn mun iða af lífi, en hér verður golfmót, sigling, opnanir, götupartý og hvaðeina, en það er frábært að geta labbað á milli sex verslana, nánast eins og á milli bara í Reykjavík á ekki fjölmennari stað,“ segir Lilja.
Aðspurð að því hvernig slík menning náist á ekki fjölmennari stað, sendur ekki á svari;
„Það er einhver orka hérna og það hugsar enginn um að þetta sé lítill bær og eitthvað ekki mögulegt, en við myndum sprengja allar markaðrannsóknir ef út í það væri farið, en hér búa aðeins rúmlega sex hundruð manns. Við höfum trú á hvert öðru og viljum verlsa í heimabyggð og hafa það skemmtilegt. Það er svo gaman að vera hér yfir sumarið og ég vildi miklu frekar fá sumarfrí yfir svartasta skammdegið.“
Hér má sjá götukort af aðildarfélögum Verzlanafjélags Seyðisfjarðar.