![](/images/stories/news/folk/kbs_gg_sl_jan16.jpg)
N4 sýnir í kvöld fyrsta þáttinn Að austan
Fyrsti þátturinn af Að austan, nýrri þáttaröð um Austurland, fer í loftið klukkan 19:30 í kvöld á N4. Þar verður litið við á Kommablóti í Neskaupstað, nýr Beitir skoðaður og farið á leiksýningu hjá Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum.
„Það er okkur mikil heiður að taka við keflinu af Gísla Sigurgeirssyni sem byggði upp frábæran þátt Glettur að austan og það verður ekki auðvelt að fara í fötin hans. En þetta er verkefni sem við hlökkum til að takast á við,“ segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar/Austurgluggans.
Hann verður einn þriggja umsjónarmanna þáttarins auk Kristborgar Bóel Steindórsdóttur og Sigríðar Lund Hermannsdóttur. Myndataka og tæknivinnsla er öll í höndum HS Tókatækni þannig að þátturinn er alfarið framleiddur eystra.
María Björg Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, segist hlakka til samstarfsins við heimafólk. „Við höfum lagt áherslu á að sérkenni N4 sjónvarps sé svæðisbundin miðlun milli landshluta, með áherslu á hlutverk sitt sem samfélagssmiður eða í svokallaðri uppbyggilegri blaðamennsku.
Gísli Sigurgeirsson hóf dagskrárgerð N4 á Austurlandi og var þátturinn Glettur meðal annars. tilnefndur til Edduverðlaunanna árið 2013.
Þegar hann ákvað að hætta, vildum við mjög gjarnan halda áfram með dagskrárgerð fyrir austan og lögðum við áherslu á að fara í samstaf við heimafólk við framleiðslu þeirra. Það tókst og nú er fyrsti þátturinn að fara í loftið. Við vonum að Austfirðingar og landsmenn allir njóti vel.“