Nafnið dregið af fréttablaði foreldranna
„Vefurinn er fyrst og fremst hugsaður sem upplýsingaveita fyrir Seyðfirðinga og aðra til þess að koma innsendu efni á framfæri, en eftir að bæjarstjórin ákvað að breyta ritstjórnarstefnu sinni og hætta að birta innsendar greinar hafa íbúar enga gátt til þess að koma sínu efni í loftið,“ segir Örvar Jóhannsson, eigandi vefsíðunnar Tölvu-skjárinn.
Tölvu-skjárinn fór í loftið fyrir stuttu, en Örvar er ekki ókunnur fréttamiðlum þar sem foreldrar hans, Jóhann Hansson og Hrefna Vilbergsdóttir, gáfu út bæjarblaðið Frétta-Skjárinn í 30 ár og þaðan er nafnið dregið. Síðasta blaðið kom út í ársslok 2012.
„Mig dreymir einnig um að setja valið efni úr blöðunum á vefinn, í það minnsta ritstjórnarpistlana sem pabbi skrifaði í hvert blað á þessu þrjátíu ára tímabili, en þarna liggja ómetanlegar heimildir.“
Örvar segir vefninn í stöðugri þróun og að fyrst um sinn megi búast við ýmsum breytingum á útliti og virkni hans, en allt þó með það að markmiði að hafa hana sem aðgengilegsta og notendavænsta. „Það er öllum frjálst að koma tillögum á framfæri varðandi hvað sem er á síðunni,“ segir hann.
Ennþá bara kostnaður
Aðspurður um markmið með verkefninu segir hann; „Fyrst og fremst að fá fólk til þess að koma vefnum inn í daglega nethringinn, fylgjast með og kannski senda inn efni. Með því móti get ég farið að selja auglýsingar en enn sem komið er er þetta bara kostnaður, en vonandi fer heimsóknum að fjölga svo ég geti í það minnsta haldið mér á núllinu.“