Nemendur Egilsstaðaskóla byggja torfbæ
Nú vinna 13 nemendur í 8. bekk í Egilsstaðaskóla að byggingu líkans af torfbæ á lóðinni hjá Safnahúsinu á Egilsstöðum. Torfbærinn er eftirgerð, í smækkuðu hlutfalli, af gamla bænum á Galtastöðum fram í Hróarstungu.
Fyrir helgi fóru nemendurnir í vettvangsferð að Galtastöðum fram í Hróarstungu og skoðuðu bæinn sem þau eru að endurgera. Á mánudag hófst vinna sem reiknað var með að stæði í þrjá daga þar sem nemendurnir eiga að byggja torfbæinn, ljóst er þó að sú vinna dregst eitthvað á langinn, að minnsta kosti um einn dag, vegna ýmissa uppákomandi aðstæðna.
Þetta er eiginlega svona námskeið í torfhleðslu og um torfbæi. Nemendum er skipt í tvo hópa, 10 nemendur sjá um byggingu eftirgerðarinnar. Þau þurfa meðal annars að mála, hlaða, moka og reka niður staura.
Í upplýsingahópnum eru 3 nemendur. Þeirra verkefni er að búa til skilti, vekja athygli almennings og fjölmiðla á verkefninu og undirbúa opnunarhátíð.
Síðasti skóladagurinn er í dag og reiknað var með að vinnunni við bæinn lyki í dag, en krakkarnir eru áhugasamir og ætla að ljúka endurgerðinni þrátt fyrir að þau verði að klára það eftir að skólanum er lokið.
Samstarfsaðilar að verkefninu eru Egilsstaðaskóli, Minjasafn Austurlands, Þjóðminjasafnið og Fljótsdalshérað. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði.