Skip to main content

Nemendur verðlaunaðir fyrir að vera edrú

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2017 11:26Uppfært 19. maí 2017 11:27

24 nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum fengu í síðustu viku viðurkenningu fyrir að hafa mætt edrú á böll nemendafélagsins í vetur.


Á böllunum geta nemendurnir komið og blásið í áfengismæla. Haldin voru fimm böll í vetur og fengu nemendur sem blásið höfðu og mælst edrú á þremur böllum viðurkenningar.

Það var Foreldra- og hollvinafélag skólans sem veitti verðlaunin í samvinnu við skólann.

Árni Ólason, skólameistari, segir fjölda þeirra sem blási á böllum hafa aukist jafnt og þétt síðan skólinn og foreldrafélagið hófu samstarfið. Það sé jákvæð þróun.

„Nemendur koma sjálfviljugir. Alls voru 110 nemendur sem blésu sig edrú á einhverjum böllum vetrarins og það þykir ekkert tiltökumál að mæta edrú á skólaskemmtanir af þessu tagi.“