![](/images/stories/news/folk/anna_thorhallsdottir_myndlist_okt15.jpg)
Níræður áhugamálari byrjaði á að teikna á Tímann
Myndlist hefur árum saman verið helsta áhugamál Önnu Þórhallsdóttur frá Ormsstöðum í Eiðaþinghá og hún verið einn tryggasti meðlimur Myndlistarfélags Fljótsdalshéraðs. Hún segist sjá ýmsar táknmyndir í náttúrunni sem hún nýti í verkum sínum.
„Ég var orðin vel fullorðin þegar ég fór að mála. Ég hafði átt fjórar túbur með olíulit í nokkur ár en lagði ekki í að nota þær fyrr en ég kom á námskeið hjá Myndlistarfélaginu. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að fara með þær,“ segir Anna.
Hún fagnaði 90 ára afmæli sínu á gamlársdag og hefur sótt öll námskeið sem félagið hefur haldið en þau eru orðin ein 25 talsins.
„Ég hef teiknað frá því ég man eftir mér með blýanti. Fyrsta sem ég man eftir var að ég teiknaði utan á blöð sem voru utan um Tímann.“
Anna segist sækja innblásturinn fyrst og fremst í náttúruna. „Ég mála best landslagsmyndir en er minna í abstrakt. Ég sé hins vegar andlit og ýmislegt, ef ég horfi og steina í náttúrunni.
Það er mikið af alls konar steinum í Gilsánni sem rennur rétt hjá bænum og einu sinni sá ég brimlendingu í steini sem ég tók upp úr henni. Ég ætla að vinna málverk upp úr honum.“
Myndlistin er helsta áhugamál Önnu. „Hún getur gefið manni svo margt: ánægju, sköpunargleði og alla mögulega vellíðan.“
Aðspurð um sýningar á verkum sínum segist hún einu sinni hafa verið beðin um að hengja upp verk í barnaskólanum á Eiðum auk þess sem hún hafi tekið þátt í samsýningum á vegum Myndlistarfélagsins. Þá var haldið upp á afmælið hennar fyrr í mánuðinum með sýningu í skólanum.