![](/images/stories/news/2016/ellý_vilhjálmstónleikar.jpg)
„Nokkrar af bestu söngkonum landsins á einu bretti“
Stórtónleikar í minningu Ellýjar Vilhjálmsdóttur verða haldnir sunnudaginn 1. maí í Egilsbúð. Ýmislegt fleira skemmtilegt verður um að vera í fjórðungnum um helgina.
Ellýjar Vilhjálmsdóttir hefði orðið áttræð 28. desember síðastliðinn, en lögin hennar lifa í minningunni og eru ein af helstu söngperlum Íslendinga. Ellý hefur haft áhrif á aðrar íslenskar söngkonur, meðal annars þær Sigríði Thorlacius, Sigríði Beinteinsdóttur, Ragnheiði Gröndal og Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem munu flytja lögin hennar á sunnudaginn.
„Þetta eru tónleikar sem við sáum kynnta í Hörpu og þar sem við þekkjum vel til hópsins ákváðum við að kanna áhugann á því að þau kæmu hingað austur í stað þess að fara beint í Hörpu eins og oftast er gert,“ segir Guðjón Birgir Jóhannsson, eigandi Hljóðkerfaleigu Austurlands.
Guðjón Birgir segir að mikilvægt sé að virkja Egilsbúð sem tónleikahús. „Aðstaðan sem við bjóðum er mjög góð og listamenn vilja koma til okkar. Okkur langaði að breikka flóruna og höfða einnig til eldra fólks, þó svo að flestir þekki þessi lögin hennar Ellýar.
Söngvarahópurinn er rosalegur, um daginn vorum við með bestu kvensöngvara Austurlands og núna erum við að fá nokkrar af bestu söngkonum landsins á einu bretti, sem og nokkra af okkar allra bestu tónlistarmönnum, það er valinn maður í hverju rúmi.“
Guðjón Birgir segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og að hann hafi engar áhyggjur af veðrinu.
„Miðasalan gengur mjög vel, jafnt og þétt. Ég hef engar áhyggjur af veðrinu þó svo það snjói í dag, ég hugsa aldrei út í það, það er hvort sem er ekki eitthvað sem ég get breytt.“
Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Lovestar í Egilsbúð
Djúpið, Leikfélag VA, frumsýnir leikverkið Lovestar í Egilsbúð á laugardagskvöldið, en leikritið er frumlegt og öðruvísi þar sem leiklist og myndbandslist blandast saman. Nánar má lesa um sýninguna hér.
Lögin hennar mömmu í Valaskjálf
Héraðsdætur halda vortónleika sína í Valaskjálf á laugardaginn og kalla þá Lögin hennar mömmu. Hér má fylgjast með þessum viðburði.
Litla barnamenningarhátíðin verður haldin í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag. Upplestur verður úr nýútkominni þýddri barnabók, Einhver Ekkineinsdóttir og á eftir verður sögusmiðja fyrir börn og unglinga með höfundi hennar Kätlin Kaldmaa og myndskreyti Marge Nelk. Að lokum verður heimildarmyndin SHÄR dance journey sýnd, en hún fjallar um alþjóðlegan hóp listamanna sem ferðaðist um Ísland til að deila dansi með landsbyggðinni. Nánar má lesa um menningarhátíðina hér.