Norðfirðingur með nýjan þátt á N4: Fræðsla um andlegar og líkamlegar þarfir hunda

Norðfirðingurinn Steinar Gunnarsson er annar tveggja stjórnenda þáttarins Hundaráð sem hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld. Hann segir þörf á meiri fróðleik til almennings um hunda.


„Við förum um víðan völl. Við skoðum þessa fjölbreyttu hundaflóru á Íslandi, förum í grunnþjálfunina og kennum það sem allir hundar þurfa að gera, verðum með almennan fróðleik og fræðumst um bæði andlegar og líkamlegar þarfir hundanna,“ segir Steinar.

Austfirðingar þekkja hann helst úr lögreglunni í Neskaupstað og af bassanum í SúEllen en hann hefur síðustu ár búið á Sauðárkróki.

Hann hefur starfað við hundaþjálfun undanfarin 27 ár. Einkum hefur hann þjálfað lögreglu- og björgunarsveitahunda en einnig fengist við fjárhunda og veiðihunda.

Með honum er Heiðrún Villa Ingudóttir sem haldið hefur úti Hundaþjálfun.is en hún er hundaatferlisfræðingur og hefur sérhæft sig í vandamálahundum.

Markmiðið að bæta hundamenninguna

Steinar segir að hugmyndin að þáttunum hafi verið að gerjast í á annað ár. Þættir sem þessir hafi ekki verið framleiddir áður og þörf sé á meiri fróðleik til almennings um hunda og umgengni við þá.

„Markmiðið er að bæta hundamenninguna. Við ræðum við dýralækna, skoðum vinnuhunda og kíkjum á hundasýningu og allt sem tengist henni.

Þættirnir eru líka fyrir þá sem eru hræddir við hunda. Við fjöllum um ýmiskonar lífseigar mýtur og leiðréttum þær. Ísland sker sig úr hvað það varðar hvar hundar mega fara. Þeir mega hvorki fara á veitingastaði né í strætisvagna. Margir halda þá eitraða sem kemur til af gamalli reynslu þegar hundar báru sull en í dag eru breyttir tímar.

Þættirnir í fyrstu þáttaröðinni verða tíu talsins en það er ekki víst að það dugi. „Það er enn af nógu að taka, ætli við gerum ekki 10 þáttaraðir?“

 

Þátturinn fer í loftið klukkan 19:30 í kvöld.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.