Norðurljósahús Íslands á Fáskrúðsfirði: Ástríða sem hefur versnað ár frá ári
Frumkvöðlar á Fáskrúðsfirði vinna nú að opnun Norðurljósahúss Íslands í Wathnes-húsi við hlið Franska spítalans. Húsið byggir á ljósmyndum sem vinkonurnar Jónína G. Óskarsdóttir og Jóhanna Kristín Hauksdóttir hafa tekið í firðinum.
„Þær hafa verið duglegar að mynda og mér fannst tilefni til að koma myndunum frekar í dagsljósið,“ segir Viðar Jónsson sem er aðalhvatamaðurinn að opnun hússins.
Það á að opna um miðjan maí og verður opið fram í lok september. Það verður staðsett í Wathnes-húsinu, sem áður var umbúðageymsla Loðnuvinnslunnar, til að byrja með en á síðan að flytja í Bryggjuhúsið árið 2018.
„Við erum að koma því í stand en fengum afnot af Wathnes-húsinu á meðan til að opna sýningu og koma okkur á kortið. Við sjáum ekki eftir því þar sem húsið er stórglæsilegt,“ segir Viðar og bætir því við að þeir sem rekið hafi inn nefið séu ekki síður áhugasamir um timburhúsið en myndirnar.
Aldrei séð myndirnar áður á prenti
Á veggjum þess hanga 24 myndir sem teknar hafa verið í Fáskrúðsfirði af Jóhönnu og Jónínu en norðurljósamyndir þeirra þaðan hafa vakið athygli víða um heim. Frægust er mynd sem Jónína tók í mars 2012 og bandaríska geimvísindastofnunin NASA fékk leyfi til að birta.
„Fólk kannast vel við hana,“ útskýrir Jónína. Fyrir henni er sérstök upplifun að sjá myndirnar á veggjunum. „Ég hef aldrei framkallað neinar myndir svo þetta er í fyrsta skipti sem ég sé þær á prenti en mér finnst hafa tekist mjög vel til.“
Hún segist hafa byrjað að mynda norðurljósin árið 2009 en elstu myndirnar á sýningunni eru frá 2011. „Þessi ástríða hefur versnað ár frá ári,“ segir hún en mikill tími fer oft í að eltast við ljósin.
„Við vöktum gjörsamlega norðurljósaspárnar og ef það er heiðskírt úti þá fer maður út á svalir eða út í garð og kíkir upp í himinn.“
Aukaorka úr norðurljósaveiðum
En hvað er svona heillandi við norðurljósin? „Þau eru aldrei eins. Það er líka mikil spenna að fara út og njóta fegurðarinnar í augnablikinu. Þetta verður eins konar veiðieðli. Þau veita manni eins konar aukaorku. Það er alveg hægt að vera úti til klukkan 3-4 að nóttu og mæta klukkan sjö ef maður er úti í góðum ljósum. Adrenalínið dugar næstu dagana á eftir.
Við erum svolítið sérstakar með að við höfum ákveðið að einbeita okkur að firðinum. Kannski er það af því við erum með fjölskyldur og komumst því ekki í langar ferðir en það er líka magnað að sjá norðurljósin yfir fjallgarðinum. Okkur finnst hann með þeim fallegustu á landinu og það er sérstök upplifun að sjá hvernig hann rammar inn ljósin.“
Auk sýninga á myndum vinkvennanna verður fræðsla um sögu þeirra, hússins og fleira sem tengist norðurljósunum. „Það er smá rómantík yfir þeirra ljósmyndasögu,“ segir Viðar.
„Það þurfti aðeins að ýta þeim af stað til að koma þessu í dagsljósið en það er gaman að koma þeim á framfæri. Það þarf ekki alltaf að fá fólk annars staðar frá, oft er heimafólk að gera flotta hluti í kringum sín áhugamál og þær eru dæmi um það.“