Nýtt fæðingarrúm á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað
Nýtt fæðingarrúm hefur verið tekið í notkun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað í stað eldra rúms sem komið var til ára sinna og úr sér gengið. Ljósmóðir segir að töluverð orka hafi varið í að hemja gamla rúmið í mestu látunum.
Nokkrir velunnarar sjúkrahússins lögðu til fé til kaupa á nýju rúmi af bestu gerð, þar á meðal Alcoa Fjarðaál og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað. Það var svo íþróttakonan Harpa Vilbergsdóttirr sem sl. sumar safnaði áheitum til styrktar fæðingardeildinni með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu, sem gerði sjúkrahúsinu endanlega kleift að ráðast í kaupin á rúminu.
Jónína Salný Guðmundsdóttir, ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsinu, segir að mikil ánægja sé með nýja rúmið enda hafi það gamla m.a. verið orðið bremsulaust og stirt í notkun.
„Það var farið að fara talsverð orka í það í fæðingum að hemja rúmið og við vorum löngu hætt að fá í það varahluti,“ segir Salný, sem tekur fram að nýja rúmið sé með góðum bremsum, lipurt og þægilegt í notkun og að sjálfsögðu með rafmagni og öllum helstu þægindum.
Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað fæddu 78 konur barn á nýliðnu ári, 38 drengi og 40 stúlkur. Konurnar komu víða að af Austurlandi til að fæða í Neskaupstað, m.a. frá Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Borgarfirði og Djúpavogi. Salný segir að árið 2013 stefni í að verða þokkalega líflegt því nú þegar séu þrjú börn fædd á deildinni.
Mynd: Fæðingarrúmið, sem velunnarar Fjórðungssjúkrahússins gáfu, er komið í notkun. Einn fyrsti notandi þess var Tenna Elisabet Magnúsdóttir, sem fæddi stúlku skömmu fyrir jól. Að baki mæðgunum á myndinni standa báðar ömmur barnsins, Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls og Hanna Sigga Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur. T.v. er Oddný Ösp Gísladóttir ljósmóðir. Myndina tók nýbakaður faðir, Eirikur Simonsen.