Örvænting greip um sig meðal lúðrasveitarinnar

„Ég komst í einhversskonar algleymisástand,“ sagði Vilhjálmur Einarsson í viðtali við Austurgluggann í síðustu viku þegar hann rifjaði upp daginn sem hann hafnaði í öðru sæti í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu, en sextíu ár verða liðin frá afrekinu næstkomandi sunnudag.



„Við vorum fimm strákar sem keyptum okkur saman fótbolta og mynduðum um hann hlutafélag, tvær krónur á mann. Það var reglugerð með félaginu þar sem staðfest var að hver mætti geyma boltann undir rúminu sínu tvær nætur í röð og þá fengi sá næsti hann,“ segir Vilhjálmur þegar hann var inntur eftir upphafinu á sínum glæsta íþróttaferli, en fyrstu árin bjó hann á Reyðarfirði.


Vilhjálmur upphafsmaður „flatstílsins“

Vilhjálmur fluttist svo með fjölskyldu sinni til Egilsstaða þar sem hann segist hafa brugðið á það ráð að útbúa sína eigin íþróttaaðstöðu þar sem jafnaldrarnir voru fáir og hann sá eini sem stundaði íþróttir á staðnum fyrstu árin.

Vilhjálmur segir alvöruna hafa byrjað á unglingalandsmóti sem haldið var á Eiðum árið 1952 þar sem hann sigraði þrístökkskeppnina.

„Þar vildi nú ekki betur til en svo að ég hitti ekki plankann með réttum fæti í fyrstu tilraun heldur lenti með vinstri fót á plankann sem varð til þess að ég fór síðasta stökkið af hægri fæti og setti með því nýtt unglingamet, heilum 70 sentimetrum lengra en ég átti gilt á móti.“

Segja má að þessi mistök Vilhjálms hafi svo sannarlega verið lán í óláni því með þeim varð til nýr stökkstíll sem kallaður var „flatstíll“.

„Það að stökkva upp af vinstri fæti gerði það að verkum að ég hafði miklu lengra stökk en keppinautarnir. Það var því alger tilviljun að ég þróaði með mér þennan stíl en ég varð síðar sá eini af þessum toppmönnum í heiminum þá sem stökk upp af vinstri fæti. Þetta er þó stíllinn sem flestir þrístökkvarar nota í dag og maður getur verið pínulítið montinn að vera kannski höfundur hans.“



Blaðaskrif virkuðu sem eggjun

Vilhjálmur gekk í Menntaskólann á Akureyri og fór þaðan á skólastyrk til Bandaríkjanna þar sem hann fékk mikla og góða alhliða líkamsþjálfun. Ólympíulágmarkinu náði hann svo á móti sem haldið var í Svíþjóð þar sem hann setti Norðurlandamet með stökki upp á 15.86 m sem var hálfs metra bæting.

Sveit Íslands taldi aðeins tvo keppendur, Vilhjálm og Hilmar Þorbjörnsson spretthlaupara. „Þá lá nú landið þannig að það var skrifuð grein um það að þetta væri illa farið með fjárreiður að senda menn um jörðina þvera og endilanga í erindisleysu. En þetta virkaði bara sem hvatning, virkilega sem eggjun.“


Léttasta stökk sem hann hefur stokkið

Vilhjálmur rifjar upp sjálfan stóra daginn. „Ég sagði við sjálfan mig, auðvitað þarf allt að lukkast, það er fröken Lukka sem stundum er með og stundum ekki. Ef hún er nú með þá hef ég undirbúið mig sem aldrei fyrr og ég á að geta stokkið lengra en ég hef gert áður. En að bæta mig enn um hálfan metra, það var eitthvað sem mig óraði ekki fyrir.

Þegar kemur að keppninni sjálfri þá þarf maður að útiloka allt, áhorfendur og allt. Þetta var óskaplega spennandi en ég gerði ógilt í fyrstu tilraun. Það voru margir keppendur og því langt á milli stökka. Ég gekk út á völlinn, settist flötum beinum og hallaði mér upp að stórum steinvaltara. Þá líka gerðist eitthvað sem ekki er hægt að lýsa almennilega með orðum, ég komst í einhvers konar algleymisástand. Ég gerði það áheit að ef ég stæði mig vel myndi ég nýta áhrif mín til góðs fyrir íslenska æsku. Það er eins og við manninn mælt, þetta stökk tókst með ágætum en það var svo fínt á plankanum að dómararnir stóðu lengi, mér fannst það heil eilífð, en loksins kom flaggið. Þetta má nú ekki misskiljast, en þegar ég stökk þetta svokallaða „silfurstökk“, þá er það með allra auðveldustu stökkum sem ég hef stokkið. Tæknin tókst svo vel og einbeitingin er hundrað prósent. En að bæta mig eftir þetta í keppninni, það var aldeilis útilokað.“



Undi Da Silva sigrinum vel

Vilhjálmur stökk 16,25 metra og setti nýtt Ólympíumet sem stóð í tvær klukkustundir, allt þar til Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva, bætti það með stökki upp á 16,35 metra.

Vilhjálmur hafnaði þar með í öðru sæti og varð fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum og er hann eini Íslendingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum.

„Það varð uppi fótur og fit þegar ljóst var að ég væri með forystuna, sérstaklega varð örvænting hjá lúðrasveitinni sem hafði alls ekki búið sig undir það að þurfa að leika íslenska þjóðsönginn, en Da Silva bjargaði þeim frá því.“

Aðspurður hvort það hafi ekki verið svekkjandi að missa titilinn aftur til Brasilíumannsins segir Vilhjálmur: „Nei, alls ekki. Ég var búinn að gera miklu meira en ég hafði vænst og undi honum sigrinum prýðilega. Ég var þó hálfdofinn eftir einbeitinguna og stóð í hálfgerðri leiðslu á verðlaunapallinum, ég get ekki sagt annað.“

Fyrir skömmu var reistur og afhjúpaður minnisvarði um afrek Vilhjálms en það stendur framan íþróttaleikvanginn á Egilsstöðum sem Egilsstöðum sem einmitt dregur nafn sitt af Vilhjálmi. Hann sýnir stökkið í fullri lengd og ber nafnið „Silfurstökkið“.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.