„Ómar er magnaður gæi og stendur alltaf við það sem hann segir“

Umferðaróhappið sem Ómar Ragnarsson lenti í um helgina verður ekki til þess að hann afboði komu sína í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta, heldur verður hann þar sérstakur gestur og ræðumaður eins ráðgert var.



„Ég var að tala við Ómar sem var alveg í banastuði og ætlar að vera með okkur á fimmtudaginn þrátt fyrir að hafa lent í þessu leiðinda óhappi og sé allur hálf lemstraður eftir,“ segir Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur á Heydölum.

Ómar Ragnarsson verður sérstakur gestur og ræðumaður í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta, á árlegri hátíð sem haldin er til heiðurs Einari Sigurðssyni presti og sálmaskáldi.

„Við höfum haldið þessa hátíð árlega síðastliðin sex ár og nýtt hana til þess að varpa ljósi á og rifja upp eitthvað úr sögunni hér í Breiðdal og annarsstaðar á Austurlandi,“ segir sr. Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum.

„Ómar mun fjalla um afhjúpun minnisvarðans um sr. Einar við Heydalakirkju þann 15. júlí 1986, en hann flaug þá austur með sr. Emil Björnsson, frá Felli í Breiðdal, en Emil var fyrrum fréttastjóri á sjónvarpinu til margra ára. Ómar lenti vélinni á gamla flugvellinum skammt frá kirkjunni, sem reyndist svo síðasta lending og flugtak frá þeim velli sem lengi hafði þjónað Breiðdælingum.

Það verður gaman að heyra Ómar segja frá kynnum sínum af Emil en þeir þekktust vel og sagði hann Ómari ýmislegt frá uppvexti sínum á Felli í Breiðdal. Emil var mikill heimagangur í Heydölum og skrifaði meðal annars bókina „Á misjöfnu þrífast börnin best“ um uppvaxtarár sín og hlaut nokkuð mikla athygli þegar hún kom út. Þrátt fyrir að vera fæddur hér og uppalinn var þessi athöfn líklega sú eina sem hann þjónaði við hér. Þess má einnig geta að við athöfnina lauk Hlíf Petra Magnúsdóttir sínum organistastörfum við Heydalakirkju eftir 40 ára farsæla þjónustu.“

Gunnlaugur segir hátíð sem þessa vera vel fallna til þess að rifja upp gamlar sögur sem auðga menninguna.

„Hús eins og kirkja virðist aðeins vera efnislegur hlutur en í rauninni er þar ógrynni af sögum á bak við og tilefni sem þetta gefur tækifæri til að segja sögur sem annars myndu falla í gleymskunnar dá.

Það verður gaman fyrir okkur að fá Ómar til þess að vera sögumann þennan dag en eins og við vitum öll þá segir hann frá af sinni einskæru snilld. Auðvitað hefði getað brugðið til beggja vona með hann eftir þetta óhapp, en hann sagðist bara verða aðeins lengur á leiðinni fyrir vikið. Ómar er magnaður gæi sem stendur alltaf við það sem hann segir.“

Hátíðin hefst í kirkjunni klukkan 14:00 og að henni lokinni verður sumarkaffi á vegum Kvenfélagsins Hlífar og markaður í grunnskólanum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.