Skip to main content

„Pínulítið krumpuð og úfin eftir nóttina“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. jún 2016 08:50Uppfært 15. jún 2016 08:50

Sex ungmenni og tveir þjálfarar frá Hjólakrafti á Austurlandi héldu í gærkvöldi hjólandi af stað frá Egilshöllinni í Reykjavík, á leið sinni hringinn í kringum landið í WOW Cyclothon götuhjólreiðakeppninni.



„Það hefur bara gengið mjög vel, allir eru búnir að taka einn sprett og sumir tvo í algerri bongóblíðu,“ sagði Hildur Bergsdóttir, annar þjálfari hópsins, í samtali við Austufrétt rétt í þessu þegar hópurinn var að nálgast Varmahlíð.

WOW Cyclothon götuhjólreiðakeppninni hefur verið haldin árlega á Íslandi síðan 2012. Hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín kílómetrunum 1358. Hjòlakraftur á Austurlandi er verkefni sem UMF Þristurinn hefur staðið fyrir í samstarfi við Hjòlakraft og eru ungmennin sex á aldrinum 12-16 ára.

Auk Hildar er Þórdís Kristvinsdóttir, hinn þjálfari liðsins með í för.

„Krakkarnir hafa náð ótrúlega miklum árangri á stuttum tíma, enda hafa æft stíft. Þegar við hófum æfingar í apríl fannst okkur langt að hjóla yfir í Fellabæ frá Egilsstöðum, en nú stefnum við á hringinn í kringum landið,“ segir Hildur.

Alls keppa þrettán lið í ár og vinna þau öll saman að því stóra verkefni að klára vegalengdina. Hjólað er nótt og dag og skiptast þátttakendur á að hjóla, taka klukkustunda langar vaktir þar sem þau hjóla í koter og hvíla í korter og að klukkustund liðinni kemur lengri pása.

Það er ekki þannig að við héðan að austan séum saman í liði, heldur er okkur dreift á lið, en í rauninni vinna allir saman og flylgjast að allan tímann. Þetta er kjörið tækifæri til að efla liðsheild, kynnast nýju fólki og upplifa þetta mikla ævintýri saman,“ segir Hlidur.

Hildur segir að hópurinn verði á Egilsstöðum í nótt þar sem móttaka verður í Hettunni, en foreldrar hópsins ráðgera að elda kjötsúpu fyrir alla þátttakendur. Stefnan er svo tekin að klára hringinn um hádegi á föstudag í Reykjavík.

„Mannskapurinn er pínu krumpaður og úfinn, enda viðbrigði að reyna að sofa í rútu – en þetta hefur gengið ótrúlega vel til og allir vinna saman að settu marki sem ein heild,“ segir Hildur.

Áheitasöfnun er samhliða keppninni og að þessu sinni rennur ágóði hennar til styrktar Hjólakrafti. Áheita vefurinn er opinn en heita má á liðin hér

Hér má fylgjast með því hvar liðið er hverju sinni og hér er Facebooksíða þess.